Belgískt fyrirtæki skilar upprunaábyrgðum

07.08.2020 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Fulltrúi fyrirtækisins Bolt sem selur græna raforku í Belgíu afhenti Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra eitt þúsund upprunaábyrgðir grænnar orku frá Íslandi. Í fréttatilkynningu fyrirtækisins segir að með þessu vilji fyrirtækið vekja athygli á því ógagni sem sala slíkra ábyrgðarbréfa geri í Evrópu og telji fyrirtækið það grafa undan hvata fyrirtækja til þess að nýta raunverulega græna orku.

Fjölmiðlar voru boðaðir á viðburðinn kl. 11.30 við Stjórnarráðshúsið. Á sama tíma bar forsætisráðherra þar að. Hafði hún ekkert heyrt um að slíkt stæði til en staldraði þó við. 

Koen Kjartan Van de Putte, íslenskumælandi Belgi, afhenti Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra upprunaábyrgðirnar og skýrði ástæður þess. Katrín þakkaði fyrir og kvaðst láta koma þeim til orkumálaráðherra. Benti hún jafnframt á að upprunaábyrgðir eru samkvæmt evrópsku regluverki

Koen Kjartan sagði í viðtali við Fréttastofu að honum finndist að Ísland ætti ekki að taka þátt í þessu samstarfi og að hann teldi að Íslendingar gerðu sér ekki grein fyrir að íslensk orkufyrirtæki seldu upprunaábyrgðir til orkufyrirtækja sem ekki framleiddu endurnýjalega orku. 

Fyrirtækið Bolt var stofnað fyrir ári og kaupir raforku frá framleiðendum orku úr meðal annars sólarsellum og vindorku. Það er í samkeppni við belgísk fyrirtæki sem framleiða óendurnýjanlega orku og kaupa upprunaábyrgðir. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi