Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Á hvaða tíðni er hennar taugakerfi stillt?“

Mynd: EPA / EPA

„Á hvaða tíðni er hennar taugakerfi stillt?“

07.08.2020 - 08:52
Ellefti og síðasti þáttur Ólympíukvölds er á dagskrá í kvöld. Í þættinum verður það helsta frá síðustu sumarólympíuleikum rifjað upp. Það eru leikarnir í Ríó de Janeiro í Brasilíu 2016.

Á leikunum kom fram á sjónarsviðið besta fimleikakona sögunnar, eins langt og sagan nær í dag. Simone Biles frá Bandaríkjunum. Biles vann fern gullverðlaun og ein bronsverðlaun á leikunum í Ríó. Hún sigraði í fjölþrautinni, í stökki, í gólfæfingum og í liðakeppni. Bronsið fékk hún svo fyrir æfingar sínar á jafnvægisslá.

„Hún er með svo gríðarlega líkamlega yfirburði varðandi getu. Hún er í raun og veru með yfirnáttúrulega hæfileika hvað varðar sprengikraft, vöðvastyrk, snerpu auðvitað og bara samhæfingu. Maður spyr sig bara: Á hvaða tíðni er hennar taugakerfi stillt?,“ segir Hlín Bjarnadóttir fimleikasérfræðingur meðal annars um Biles í þætti kvöldsins sem verður á dagskrá RÚV klukkan 19:40.

Eitthvað sem allir íþróttamenn vilja hafa

„Hún gerir þetta svo hratt og vel og af mikilli nákvæmni. Hún er svo ofboðslega kraftmikil. Ég held sko að fólk sem hefur áhuga á öllum íþróttum sjái bara að þetta sé eitthvað nýtt. Hvernig er hægt að búa yfir svona miklum sprengikrafti? Þetta er eitthvað sem allir íþróttamenn vilja hafa,“ segir Hlín meðal annars, en Hlín mun dæma í fimleikakeppni Ólympíuleikanna í Tókýó næsta sumar.

Í þættinum í kvöld verður farið yfir ýmislegt fleira frá leikunum fyrir fjórum árum í Ríó. Ólympíukvöld hafa verið á dagskrá RÚV öll virk kvöld á meðan leikarnir hefðu farið fram í Tókýó í ár. Hina þættina tíu má alla sjá hér. Þáttur kvöldsins hefst klukkan 19:40. Gestir Kristjönu Arnarsdóttur í kvöld verða Eygló Ósk Gústafsdóttir, Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson og Sigurbjörn Árni Arngrímsson.