„Tónlistin er eins og sálfræðitími fyrir mig“

Mynd: RÚV núll / Ouse

„Tónlistin er eins og sálfræðitími fyrir mig“

06.08.2020 - 15:52
Tónlistarmaðurinn Ásgeir Bragi sem kemur fram undir listamannsnafninu Ouse hefur verið að gera það gott í tónlistarbransanum, þá sérstaklega erlendis. Hann er með um 1,3 milljónir spilana á mánuði á streymisveitunni Spotify og vinsælasta lagi hans hefur verið streymt um 26 milljón sinnum þrátt fyrir að fáir Íslendingar viti af þessum unga tónlistarmanni.

Ásgeir Bragi er 19 ára gamall og kemur frá Sauðárkróki. Hann kemur úr mikilli tónlistarfjölskyldu en faðir hans er Guðbjörn Ægir Ásbjörnsson sem var liðsmaður í hljómsveit Geirmundar Valtýssonar. Ásgeir segir tónlistina því vera í blóðinu.

Þegar hann var tólf ára gamall fékk hann lítið leikfangapíanó frá föður sínum og varð það hans uppáhalds leikfang. Hann fór svo í framhaldi af því að æfa á píanó. Þegar Ásgeir var fjórtán ára fékk hann svo tölvu, byrjaði þá að gera takta og hefur verið að skapa tónlist síðan.

Listamannsnafnið Ouse kom þannig til að hann spilar mikið af tölvuleikjum og þá mestmegnis við útlendinga. Hann ákvað því að breyta nafni sínu í Ouse svo það væri auðveldara að bera það fram.

Vinsælasta lag hans, Dead Eyes, er með um 26 milljónir spilana á Spotify. Ásgeir segist alls ekki hafa búist við velgengninni en þó að það hafi margt spilað inn í sem hafi hjálpað honum að koma sér á framfæri. Sem dæmi má nefna að á Youtube er rás sem heitir Promoting sounds en hún aðstoðar unga og upprennandi tónlistarmenn við að ná eyrum fleira fólks. 

Nýlega gaf Ásgeir út plötuna Frá mér til þín. Þar fær hann marga góða gestasöngvara eins og Auð, Helga Sæmund, 24/7 og fleiri. Hann segir að þessi plata sé samin um stelpu sem hryggbraut hann. Ásgeir talar mikið um sína andlegu heilsu, bæði í lögunum og svo einnig á Instagram-síðu sinni þar sem hann hefur veitt aðdáendum sínum innsýn inn í líðan sína frá degi til dags. 

„Ég nota tónlist svolítið mikið svona eins og sálfræðitíma. Ég bara skrifa eins og mér líður,“ segir Ásgeir Bragi.

Hann segir að honum hafi fundist erfitt fyrst að tala um sína andlegu líðan en nú sé það honum tamara. „Ég er búinn að vera að gera þetta svo lengi og það vita eiginlega allir sem hlusta á tónlistina mína hvernig mér líður og því finnst mér auðveldara að tala um þetta. Ég held að það sé líka einmitt mikilvægt að setja svona á Instagram - bara til að sýna fólki að þetta er ekki bara í tónlistinni heldur líka í alvörunni,“ segir Ásgeir.

Sjá má viðtalið í heild sinni við Ásgeir Braga í spilaranum hér fyrir ofan. Jafet Máni ræddi við hann um tónlistina, andlega heilsu og fleira.