Stal úr verslun, af hóteli og úr búningsklefa

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Rafskútu var stolið í Háleitis- og Bústaðahverfi í gærkvöldi. Einstaklingur sást á upptöku öryggismyndavéla stela rafskútunni. Hann var handtekinn af lögreglu síðar um kvöldið og var hann þá með rafskútuna.

Þá var hann einnig búinn að stela jakka af hótelgesti á hóteli í hverfinu og tveimur veskjum og bíllyklum úr búningsklefa.

Bíll hans var stöðvaður á miðnætti í Háleitis- og Bústaðahverfi og einstaklingurinn handtekinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum.  Ökumaðurinn er grunaður um þrjá þjófnaði og var hann vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Brotist var inn í íbúð í Hafnarfirði, hverfi 220, og verðmætum stolið. Tilkynning barst lögreglu um innbrotið klukkan hálf sjö í gærkvöldi. 

Þá var tilkynnt um umferðaróhapp í Kópavogi klukkan hálf átta. Enginn slasaðist en ökumaður er grunaður um ölvunarakstur. Klukkan korter í átta barst lögreglu einnig tilkynning um umferðaróhapp í Breiðholti. Þá skullu saman bíll og rafskúta. Ökumaður rafskútunnar kenndi til eymsla í fæti og ætlaði sjálfur að leita læknishjálpar.

 

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi