Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Samtals rúm 110.000 ný smit í Bandaríkjunum og Brasilíu

epa08584899 A full moon is seen just right behind the Christ the Redeemer monument in Rio de Janiero, Brazil, 05 August 2020.  EPA-EFE/ANTONIO LACERDA
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Rúmlega 57.000 manns greindust með COVID-19 í Brasilíu síðasta sólarhringinn og yfir 53.000 í Bandaríkjunum. Þar voru skráð 1.262 dauðsföll af völdum sjúkdómsins þennan sama sólarhring og í Brasilíu voru þau enn fleiri, eða 1.437. Bandaríkin og Brasilía eru þau ríki sem verst hafa orðið úti í kórónaveirufaraldrinum og ennþá geisar sóttin heitar þar en víðast hvar annars staðar.

Í Bandaríkjunum eru staðfest smit orðin ríflega 4,8 milljónir talsins og nær 158.000 dauðsföll hafa verið rakin til COVID-19 þar í landi. Í Brasilíu nálgast smitin 2,9 milljónir og staðfest dauðsföll af völdum sjúkdómsins eru rúmlega 97.000. Í heiminum öllum hafa yfir 18,8 milljónir manna greinst með COVID-19 og nær 708.000 látist úr sjúkdómnum svo vitað sé.