Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Óska eftir sjónarmiðum vegna kaupa Storytel á Forlaginu

06.08.2020 - 13:36
Mynd með færslu
Standandi: Kristófer Jónasson frá LOGOS, Gunnar Sturluson frá LOGOS, Stefán Hjörleifsson, landsstjóri Storytel á Íslandi og Árni Einarsson, stjórnarmaður í Mál og menningu og Forlaginu. Sitjandi: Þórhildur Garðarsdóttir, fjármálastjóri Forlagsins, Röstan Panday, stjórnarformaður Storytel AB, Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, Soffía Eydís Björgvinsdóttir frá KPMG og Halldór Guðmundsson, stjórnarformaður Máls og menningar og Forlagsins. Mynd: Forlagið
Samkeppniseftirlitið óskar nú eftir sjónarmiðum vegna kaupa Storytel á 70% hlutafjár Forlagsins. Það veitir þannig þeim sem telja sig hafa hagsmuna að gæta vegna samrunans færi á því að koma að sjónarmiðum vegna hans.

Forlagið og Storytel opinberuðu samning þann 1. júlí. Samningurinn felur í sér sölu á 70% hlut í Forlaginu til Storytel. Bókmenntafélagið Mál og menning, fer áfram með 30% hlut í Forlaginu. Samningurinn var gerður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og barst stofnuninni tilkynning um kaupin þann 20. júlí. Samkeppniseftirlitið óskar þess að umsagnir vegna samrunans berist eigi síða en 13. ágúst.

Áhrifa samruna gæti helst í smásölu bóka á íslensku

Í samrunaskrá fyrirtækjanna kemur fram að fyrirtækin hyggist ekki sameina starfsemi sína og að sameiginleg innlend heildarvelta samrunaaðila nái ekki þeirri upphæð sem mælt er fyrir um í samkeppnislögum og því séu viðskiptin ekki tilkynningarskyld til Samkeppniseftirlitsins. Storytel telji þó rétt í þágu upplýsingagjafar að tilkynna Samkeppniseftirlitinu um samrunann.

Samrunafyrirtækin telja að áhrifa samrunans muni gæta að afar takmörkuðu leyti á markaði fyrir útgáfu og heildsölu bóka á íslensku „þar sem raunveruleg skörun á starfsemi samrunaaðila er lítil sem engin,“ en líta svo á að fyrirhuguðu viðskipti komi ekki til með að vekja upp nein álitaefni út frá sjónarhóli samkeppnisréttar.

Áhrifa samrunans muni aðallega gæta á markaði fyrir smásölu bóka á íslensku. Vísað er í könnun fá 2019 sem sýnir að lestur á bókum á erlendri tungu hafi aukist verulega á kostnað íslenskrar útgáfu.

Tekið er fram að enginn starfsmaður Storytel hérlendis sinni ritstjórn, útlitshönnun, samskiptum við smásala, kynningarstarfsemi eða öðrum þeim þáttum sem hingað til hafa verið taldir til bókaútgáfu. Storytel reki ekki heldur sérstakt bókaforlag hérlendis en félagið hefur gert hljóðnytjaleyfissamninga (e. Audio License Agreements) við einstaka rétthafa hér á landi í gegnum Storyside AB sem er fyritæki innan Storytel samstæðunnar.

Storytel gerir annars vegar hljóðnytjaleyfissamninga hins vegar dreifingarsamninga.

Í samrunaskrá kemur fram að Mál og menning eigi 87% í Forlaginu og Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, 13%.

Árið 2019 nam velta Storytel samstæðunnar á heimsvísu 1.843 milljónum sænskra króna eða 28,7 milljörðum íslenskra króna á núverandi gengi. Velta Forlagsins var um 8 milljónir evra eða 1.100 milljónir króna. Kaupverðið er sem fyrr ekki gefið upp.