Ísilagt Þingvallavatn ekki ákjósanlegur lendingarstaður

06.08.2020 - 10:11
Nauðlending á Þingvöllum 19. mars 2020.
 Mynd: Rannsóknarnefnd samgönguslysa
Ekki var tilkynnt um nauðlendingu lítillar flugvélar af gerðinni I.C.P. Savannah S, TF-ASK, á Þingvallavatni í mars fyrr en vitni tilkynnti lögreglu um það fjórum og hálfum tíma eftir að vélin lenti og hlekktist á. Rannsókn samgönguslysa hefur lokið við bókun slyssins og er það mat hennar að aðstæður á Þingvallavatni hafi ekki verið ákjósanlegar til lendingar.

Rannsóknarnefndin beinir þeim tilmælum til flugmanna að huga að tilkynningarskyldu sinni í tilfelli alvarlegra flugatvika og flugslysa og að hrófla ekki við vettvangi að undanskildum björgunaraðgerðum.

Flugmaðurinn sem var enn í verknámi var á leið frá fisflugvellinum á Hólmsheiði í Landmannalaugar þegar hann ákvað að lenda á Þingvallavatni sem var ísi lagt. Í lendingunni, sem var um klukkan 14:20, skammt frá Sandey, hlekktist flugvélinni á. Á yfirborði íssins var krapi og skemmdist nefhjólið í lendingunni.

Í bókuninni kemur fram að flugmaður TF-ASK hafi hringt í annan eftir aðstoð og kom sá á vettvang á vélsleða um þremur klukkustundum síðar. Þeir reyndu að gera við skemmdirnar. Því næst reyndi flugmaðurinn að koma flugvélinni á loft á nýju. Fór TF-ASK um 3 metra í flugtaksbruninu áður en nefhjólsleggurinn féll saman að nýju og skemmdist þá loftskrúfa flugvélarinnar.

Vitni tilkynnti slysið til lögreglunnar klukkan 18:50 og lögregla kom á vettvang um klukkustund síðar.

Um kvöldið var ísinn metinn ekki nægilega öruggur af hálfu lögreglu til þess að senda björgunarsveitir að ná í flugvélina. Flugvél TF-ASK var sótt út á Þingvallavatn með aðstoð þyrlu tæpum tveimur dögum eftir að henni hlekktist á í lendingunni á vatninu.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi