Farþegar sem flugu með Icelandair í júlí voru næstum fjórum sinnum fleiri en í júní. Þó voru þeir 87 prósentum færri en í júlí í fyrra. Þetta kemur fram í mánaðarlegum flutningatölum fyrir júlímánuð sem Icelandair Group birti í Kauphöll í dag.
Farþegum fjölgaði úr 18.500 í júní í 73.200 í júlí. Um það bil 58.200 flugu til Íslands og um 13.300 frá Íslandi. Mjög fá tengiflug voru farin milli Evrópu og Norður-Ameríku vegna ferðatakmarkana í Bandaríkjunum og á ytri landamærum Schengen. Framboð á flugi minnkaði um næstum 90 prósent.
Tæplega 15.000 flugu með Air Iceland Connect í mánuðnum en það eru 48 prósentum færri farþegar en í júlí í fyrra. Þá kemur fram í tilkynningu frá Icelandair að samdrætti í farþegaflugi hafi verið mætt með fleiri ferðum fraktvéla félagsins, bæði til Bandaríkjanna og Evrópu.