Danska lögreglan ætlar að sekta fyrir hávaða

06.08.2020 - 18:02
epaselect epa08586239 FC Copenhagen fans celebrating their win after the UEFA Europa League Round of 16, second leg soccer match between FC Copenhagen and Istanbul Basaksehir, Copenhagen, Denmark, 05 August 2020.  EPA-EFE/PHILIPP DAVALI  DENMARK OUT
Stuðningsmenn FC Kaupmannahöfn fengu bágt fyrir fagnaðarlæti sín eftir sigur liðsins í Evrópudeildinni.  Mynd: EPA-EFE - RITZAU SCANPIX
Þolinmæðin virðist á þrotum hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn en henni finnst unga fólkið í höfuðborginni hafa fært sig upp á skaftið og þykir hávaðinn frá þeim helst til of mikill. Lögreglan vill hafa meiri kyrrð í borginni og ætlar því að sekta þá sem eru með of mikil læti.

Fram kemur á vef DR að lögreglan nenni ekki lengur að biðja fólk sem skemmti sér utandyra um að lækka aðeins í sér.

Í stað kurteisislegra tilmæla á fólk nú von á vænni sekt. „Tilraunir okkar til að ræða við fólk hafa ekki skilað tilætluðum árangri,“ hefur DR eftir Peter Dahl hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn.

Dahl segir það sérstaklega ungt fólk sem sé til vandræða. Það komi sér fyrir í almannarými með þráðlausum hátölurum og leiki tónlist langt fram á nótt. DR segir ástandið hafa verið sérstaklega slæmt á hinum svokölluðu grænu svæðum þar sem nætursvefni íbúa hafi ítrekað verið raskað.

Dahl segir að miðað við veðurspá helgarinnar sé viðbúið að margir hugsi sér gott glóðarinnar. „En það breytir því ekki að við eigum að taka tillit  og virða það að sumir vilja bara sofa.“  Láti fólk ekki segjast fái það sekt og þurfi lögreglan að hafa afskipti af sama fólkinu aftur og aftur geti hún lagt hald á hátalarana. 

Tilkynningum um hávaða hefur fjölgað nokkuð á þessu ári. Það má eflaust rekja til þess að í Danmörku líkt og annars staðar hafa næturklúbbar og skemmtistaðir verið lokaðir vegna kórónuveirufaraldursins.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi