Yfir 100 manns saknað eftir sprengingarnar í Beirút

05.08.2020 - 13:34
Erlent · Asía · Beirút · Líbanon
Mynd: EPA-EFE / EPA
Yfir hundrað manns er saknað eftir sprengingarnar við höfnina í Beirút í Líbanon í gær. Þegar hefur verið staðfest að yfir eitt hundrað hafi látist og að á fimmta þúsund hafi slasast.

Björgunarsveitir vinna nú í kappi við tímann við leit að fólki í rústum. Í myndbandinu hér að ofan má sjá þegar hinum 27 ára gamla Isam Ata var bjargað úr rútstum byggingar. Þar hafði hann verið fastur í yfir 16 klukkutíma.

Michel Aoun, forseti Líbanons, lýsti í dag yfir þriggja daga þjóðarsorg. Ríkisstjórn landsins kom saman til neyðarfundar í dag og sagði forsetinn þar að engin orð fái því lýst hvernig atburðir gærdagsins hafi leikið borgina.

Sprengingin varð klukkan rúmlega 18:00 að staðartíma í gær, eftir að eldur kviknaði á hafnarsvæðinu. Fólk um alla borg fann höggbylgjuna sem fylgdi sprengingunum og gler þeyttust um allt. Höggbylgjan fannst einnig á Kýpur, í um 240 kílómetra fjarlægð.  

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi