
Tvær gríðarmiklar sprengingar urðu í vöruskemmu við höfnina í Beirút í gær. Talið er að þær hafi orðið í miklum og margra ára gömlum birgðum af ammóníum-nítrati sem þar voru geymdar við ófullnægjandi aðstæður. Ekki er talið að um hryðjuverk sé að ræða.
Sprengingarnar ollu miklu tjóni á mannvirkjum og höggbylgjan frá þeim var slík að skjálfti af stærðinni 3,5 mældist á skjálftamælum og fannst alla leið til Kýpur, röska 200 kílómetra úti í Miðjarðarhafi.
Notað til áburðarframleiðslu og sprengjugerðar
Ammóníum-nítrat er einkum notað til áburðarframleiðslu en það er svo sprengifimt að glæpa- og hryðjuverkamenn nota það ósjaldan til sprengjuframleiðslu. Samkvæmt upplýsingum líbanskra yfirvalda voru rúm 2.700 tonn af efninu í vöruskemmunni, þar sem það hafði verið geymt í minnst sex ár. Tollstjóri landsins segir að aldrei hefði átt að geyma efnið á þessum stað og varpar allri ábyrgð á hafnarstjórann í Beirút.