Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Yfir 100 látin í Beirút

05.08.2020 - 06:18
Erlent · Hamfarir · Asía · Líbanon
epa08584301 Lebanese firefighters work at the scene of explosion at the Beirut Port, Beirut, Lebanon, 04 August 2020. Dozens of people were killed and at least 2,500 injured in the explosion which also caused severe damage, while its cause is not yet known.  EPA-EFE/WAEL HAMZEH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fórnarlömb sprenginganna við höfnina í Beirút í gær eru orðin fleiri en eitt hundrað talsins, samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Rauða krossinum í Líbanon. Á fimmta þúsund slösuðust í sprengingunum, mörg þeirra alvarlega. Forseti Líbanons, Michel Aoun, hefur boðað til neyðarfundar ríkisstjórnar og öryggisráðs landsins, þar sem hann hyggst leita heimildar til að lýsa yfir neyðarástandi í landinu næstu tvær vikurnar.

 

Tvær gríðarmiklar sprengingar urðu í vöruskemmu við höfnina í Beirút í gær. Talið er að þær hafi orðið í miklum og margra ára gömlum birgðum af ammóníum-nítrati sem þar voru geymdar við ófullnægjandi aðstæður. Ekki er talið að um hryðjuverk sé að ræða.

Sprengingarnar ollu miklu tjóni á mannvirkjum og höggbylgjan frá þeim var slík að skjálfti af stærðinni 3,5 mældist á skjálftamælum og fannst alla leið til Kýpur, röska 200 kílómetra úti í Miðjarðarhafi.

Notað til áburðarframleiðslu og sprengjugerðar

Ammóníum-nítrat er einkum notað til áburðarframleiðslu en það er svo sprengifimt að glæpa- og hryðjuverkamenn nota það ósjaldan til sprengjuframleiðslu. Samkvæmt upplýsingum líbanskra yfirvalda voru rúm 2.700 tonn af efninu í vöruskemmunni, þar sem það hafði verið geymt í minnst sex ár. Tollstjóri landsins segir að aldrei hefði átt að geyma efnið á þessum stað og varpar allri ábyrgð á hafnarstjórann í Beirút.