Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar

05.08.2020 - 19:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - RÚV
Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar um rúmlega eitt prósentustig samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Fylgi flestra stjórnmálaflokka er óbreytt frá seinustu könnun.

Píratar bæta við sig þremur prósentustigum á milli kannana en Vinstri græn missa þrjú prósentustig á móti. Fylgi annarra flokka er nánast óbreytt frá seinustu könnun. Sjálfstæðisflokkur fengi rúm 23 prósent, Samfylkingin tæp fimmtán og Píratar tæp fjórtán prósent. Vinstri græn, Viðreisn og Miðflokkurinn fengju tæp ellefu prósent, Framsóknarflokkurinn rúmlega sjö og hálft prósent, Flokkur fólksins rúm fjögur prósent og Sósíalistaflokkurinn tæp fjögur prósent. Tæplega tíu prósent segjast myndu skila auðu eða kjósa ekki. Ellefu prósent tóku ekki afstöðu eða gefa hana ekki upp.

Stuðningur við ríkisstjórnina hefur minnkað frá seinustu könnun. Þá sögðust tæp fimmtíu og sjö prósent styðja stjórnina, en nú nýtur hún stuðnings um fimmtíu og fimm og hálfs prósents þeirra sem svöruðu. 

Könnunin var gerð dagana fyrsta júlí til þriðja ágúst, ellefuþúsund eitthundrað þrjátíu og sex voru í úrtakinu og tóku rúmlega fimmtíu og eitt prósent þátt.
 

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi