Met í bíla- og tækjalánum í sumar

05.08.2020 - 07:38
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Met var slegið í júní hjá Landsbankanum í lánum til bíla- og tækjakaupa. Samtals lánaði bankinn 1.198 milljónir í þessum flokki og hefur aldrei svo mikið verið lánað í einum mánuði.

Morgunblaðið greinir frá þessu í dag. 

Nánast jafn mikið lánað í júní og júlí og á fyrstu fimm mánuðunum

Arnbjörn M. Rafnsson, forstöðumaður bíla- og tækjafjármögnunar Landsbankans segir að yfirleitt dragist lánveitingar til bílakaupa saman á óvissutímum en annað sé uppi á teningunum nú. 

Hann rekur aukninguna helst til uppsafnaðar eftirspurnar sem skapaðist í veirufaraldrinum. Hann segir að 80% af lánveitingum bankans í flokkinum megi rekja til notaðra bifreiða. Í júlí nam heildar lánsupphæð bankans í flokknum 1.008 milljónum en frá janúar til maí lánaði bankinn alls 2.420 milljónir. Minnst var lánað í janúar og apríl.

Egill Jóhanns­son, for­stjóri Brim­borgar, sagði fyrr í sumar við fréttastofu það hafa komið veru­lega á ó­vart hve sala á notuðum bílum gekk vel. Brimborg ásamt flestum bílaleigum landsins réðst í að selja notaða bíla sem annars hefðu verið leigðar út til ferðamanna.  Nefndi Egill lágt vaxtastig og færri utanlandsferðir sem líklega hvata.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi