„Maður finnur að þetta fær virkilega á fólk“

05.08.2020 - 17:07
epa08585099 A general view of the destroyed port in the aftermath of a massive explosion in downtown Beirut, Lebanon, 05 August 2020. According to media reports, at least 100 people were killed and more, 4,000 were injured and hundreds gone missing, after an explosion, caused by over 2,500 tonnes of ammonium nitrate stored in a warehouse, devastated the port area on 04 August.  EPA-EFE/NABIL MOUNZER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þörfin fyrir aðstoð í Beirút, höfuðborg Líbanon, er gríðarleg eftir að miklar sprengingar urðu þar í gær með þeim afleiðingum að yfir eitt hundrað eru látin og yfir 4.000 særð. Þetta segir Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri Hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins, en Rauði krossinn á Íslandi stendur nú fyrir neyðarsöfnun vegna sprenginganna.

„Við finnum að fólk hefur mikinn áhuga á því sem er að gerast þarna og það hefur mikið verið haft samband við okkur. Hér á landi tengjast margir Líbanon með einum eða öðrum hætti; hér býr nokkuð af fólki þaðan og hér er líka flóttafólk frá Líbanon. Þetta fólk tengist síðan víða í samfélaginu og maður finnur að þessi sprenging og afleiðingar hennar fær virkilega á fólk,“ segir Atli.

Að minnsta kosti 300.000 misstu heimili sín í sprengingunni. Þá er Líbanon það ríki heims sem hýsir hæsta hlutfall flóttafólks, sé miðað við höfðatölu, en um fjórðungur íbúa landsins er flóttafólk, þar af um 1,5 milljón frá Sýrlandi.“

Spurður hvort Rauði krossinn á Íslandi muni senda mannskap til Beirút til hjálparstarfa segir Atli að enn hafi ekki verið tekin ákvörðun um það. Verið sé að meta aðstæður. „Það má vel vera að svo verði,“ segir hann. „Við höfum undanfarin ár unnið að því að efla neyðarheilbrigðisþjónustu Rauða krossins í Líbanon með stuðningi Utanríkisráðuneytisins og við þekkjum vel til þarna.“

 

Hægt er að styrkja hjálparstarf Rauða krossins um 2.900 kr. með því að senda SMS-ið HJALP í númerið 1900. Einnig má leggja inn á reikning 0342 - 26 -12, kt. 530269-2649.

 

 

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi