Lifði í stöðugri ógn vegna ofsókna föður síns

Mynd: aðsend / aðsend

Lifði í stöðugri ógn vegna ofsókna föður síns

05.08.2020 - 14:50

Höfundar

„Mér leið stundum eins og ég væri í einhverri bíómynd, þetta var svo óraunverulegt. Ég upplifði líka svo mikið varnarleysi, það er ekkert hægt að gera," segir fjölmiðlakonan Erla Hlynsdóttir.

Erla var gestur Viktoríu Hermannsdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1. Þar sagði hún frá því hvernig faðir hennar ofsótti hana og hrellti síðasta eina og hálfa árið af lífi sínu - áður en hann framdi sjálfsvíg. 

Maður mikilla öfga
Erla ólst ekki upp með föður sínum en komst í samband við hann þegar hún var 11 ára. Þau bjuggu þó alltaf í sitthvorum landshlutanum þannig að sambandið fór mest fram í gegnum síma og seinna í gegnum tölvuna. Það gekk á ýmsu í sambandinu þó það hafi verið yfirleitt gott framan af. „Það var í raun bara alls konar. Stundum var það mjög gott en stundum var það ekki gott," segir Erla um samband þeirra. „Pabbi var í rauninni svona maður mikilla öfga má segja. Annað hvort var allt algjörlega frábært eða algjörlega ömurlegt. Pabbi var góður maður. Hann var gríðarlega greindur. Fólk talaði alltaf um hvað pabbi var afskaplega vel gefinn, það væri hægt að fletta upp í honum eins og alfræðiorðabók," segir hún. 

Drakk illa 
Hún segir hann þó alla tíð hafa drukkið mikið og illa og vegna landfræðilegrar fjarlægðar þeirra þá varð hún ekki eins vör við það hvernig hann gat látið þegar hann var að drekka. Hann hafi einnig glímt við andleg veikindi þó hann hafi ekki fengið greiningu á því. „Hann hefur í rauninni alltaf verið veikur en gengið svona misjafnlega að halda því í skefjum. Hann drakk alltaf mjög mikið og mjög illa. Þetta var ástæðan fyrir því að mamma ákveður að skilja við hann áður en ég varð 1 árs, hún gat ekki verið með hann á heimilinu. Ég held að þetta hafi stigmagnast í gegnum árin." 

Atvik sem breytti öllu
Eftir að Erla eignaðist dóttur sína lagði hún mikið upp úr því að halda sambandi við pabba sinn og fann að hún og dóttir hennar skiptu hann máli. Hins vegar fór að bera meira á erfiðum samskiptum þeirra á milli. „Það eru alltaf að koma upp svona uppákomur, síðan er það haustið 2016, sem að við erum að flytja, ég og Lovísa mín. Hann er rosa spenntur og langar svo að sjá nýju íbúðina okkar. Ég var alls ekki tilbúin að fá neinn gest, það var bara allt í kössum, við vorum alls ekki búin að koma okkur fyrir," segir Erla sem á endanum lét þó undan og faðir hennar kom í heimsókn. Hún skilur hann eftir með dóttur sinni meðan hún fer að klára ganga frá í íbúðinni sem hún var að flytja úr. Þegar hún kom til baka var faðir hennar búinn að svæfa dóttur hennar langt fyrir kvölmatartíma og sat sjálfur að sumbli. 

„Þetta var allt mjög skringilegt og ég var mjög reið. Þá verður hann sömuleiðis mjög reiður og við förum að rífast mjög harkalega og hann stormar út," segir Erla. Um nóttina vakna mæðgurnar svo við að hann er að berja alla glugga að utan. „Ég fer út og kalla á hann að hætta þessu. Hann eigi að koma sér í burtu, en hann er bara í rauninni alveg trylltur. Er mökkölvaður. Er að reyna komast inn í íbúðina. Ég nýti mína aflsmuni til að reyna halda honum úti, ég er að reyna halda honum í forstofunni. Hann er öskrandi alls konar fúkyrði yfir mér og hvað ég sé ömurleg móðir. Dóttir mín kemur síðan hlaupandi fram og þá fer hann að öskra á hana og hella sér yfir hana hvað hún sé ömurleg," segir Erla en þarna er dóttir hennar sjö ára gömul. Í framhaldinu kemur lögregla og handtekur svo föður hennar seinna um kvöldið.

Alvarlegar ofsóknir
Þetta atvik varð upphaf að einu og hálfu ári af ofsóknum af hans hálfu en Erla hitti hann aldrei aftur eftir þetta. Faðir hennar svipti sig lífi um einu og hálfu ári eftir atvikið. 
„Ég tala ekkert við hann eftir þetta en það fara að koma alls konar skringilegir póstar. Tölvupóstar. Ýmist til mín eða til mömmu eða bara tölvupóstar sem voru sendir til fólks bæði sem ég þekkti og þekkti ekki, þar sem ég fékk afrit þar sem var verið að drulla yfir mig. Segja hvað ég væri ógeðsleg og ömurleg. Í sumum póstunum var líka talað um hvað dóttir mín er ömurleg sem sýnir í raun bara hvað hann var veikur." 

Sendi pósta á vinnuveitanda hennar
Meðal annars sendi faðir hennar fjölmarga pósta á þáverandi vinnuveitanda hennar sem Erla segir að hafi verið augljóslega í þeim tilgangi gert að hún myndi missa vinnuna. „Ég bað ekki um að fá að sjá þessa pósta, ég vissi bara að þeir væru viðbjóður. Þarna kom í ljós að hann var búinn að vera senda vinnuveitanda mínum alls konar skilaboð til þess að gera lítið úr mér. Ég spyr hann hvort hann upplifi að pabbi hafi verið að reyna gera mig atvinnulausa og það var bara þannig. Hluti af þessari rógsherferð var að reyna gera mig atvinnulausa. Þar af leiðandi tekjulausa einstæða móður."

Lifði í stöðugri ógn
Erla segir aðstæðurnar hafa verið óraunverulegar og hún hafi lifað í stöðugri ógn um hvað kæmi næst. „Ég sjálf sem fjölmiðlakona, mér fannst eins og ég væri núna manneskjan sem ég er búin að taka viðtal við svo oft. Ég er búin að taka viðtöl við fullt af fólki sem hefur verið ofsótt og það gerir enginn neitt, það er ekkert hægt að gera. Löggan gerir ekki neitt, mér datt ekki einu sinni í hug að hringja í lögguna, ég vissi að þeir myndu ekki gera neitt. 

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér og öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Maður horfði upp á fólk deyja"

Menningarefni

Þráði alltaf að eignast fjölskyldu