Langar að leika fleiri dramahlutverk

Mynd: RÚV / RÚV

Langar að leika fleiri dramahlutverk

05.08.2020 - 08:56

Höfundar

„Ég ætlaði að verða leikstjóri. Ég var alveg harðákveðinn í því. Ég var mjög ungur þegar ég ákvað að verða leikstjóri,“ segir Steinþór Hróar Steinþórsson, eða Steindi Jr. eins og hann er jafnan kallaður. 

Steindi var gestur Viktoríu Hermannsdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1. Hann er fyrir löngu orðinn þekktur skemmtikraftur og hefur starfað bæði í sjónvarpi og útvarpi auk þess sem hann hlaut Edduverðlaun fyrir leik sinn í myndinni Undir trénu þar sem hann var í aðalhlutverki.

Tók upp bíómyndir á segulband
Steindi segist alltaf hafa haft áhuga á leiklist og var uppátækjasamt barn. „Ég átti svona segulbandstæki og var alltaf að tala inn á það. Svolítið eins og var í Home Alone. Ég átti svipað tæki og ég var alltaf að taka upp bíómyndir. Þá var ekki komið iPad eða neitt svoleiðis þannig ég var alltaf að taka upp brot úr Ace Ventura og einhverju svona. Svo var ég með heyrnartól í bílnum og svo hlustaði ég bara á myndina,“ segir hann.

Dreymir um að verða leikstjóri
Stóri draumurinn er að verða leikstjóri. Steindi byrjaði reyndar ferilinn fyrir aftan myndavélina þó að hann svo síðar færst fram fyrir hana. „Ég vil eiginlega enn þá verða leikstjóri. Það er alltaf svona planið. Það er bara alltaf mikið að gera í hinu svo kannski með tímanum getur maður farið að prófa leikstjórn. Maður hefur alltaf verið með puttana í þessu. Ég hef framleitt mjög mikið af mínu efni, þannig maður þekkir þetta allt, sem mér finnst mjög mikilvægt,“ segir hann.

Urðu allir þreyttir á honum
Sem barn fékk hann vinina í hverfinu til að leika í hinum ýmsu stuttmyndum hjá sér. „Svo voru allir orðnir frekar snemma þreyttir á þessu nema ég. Ég var alltaf á vélinni. Svo með tímanum þá voru allir farnir að læra á mig, þegar ég sagði að það tæki hálftíma þá tók það þrjá tíma þannig það voru allir hættir að nenna þessu. Nágrannar mínir voru farnir að taka upp fyrir mig sumar senur, ég bankaði bara upp á hjá vinafólki mömmu og pabba og bara: „Geturðu aðeins haldið á þessari kameru?“

Erfitt verkefni
Steindi fékk sem áður segir Edduverðlaun fyrir leik sinni í myndinni Undir trénu. Hann segir það hafa verið mikla reynslu og vill leika fleiri dramahlutverk þó hann hafi mest verið í grínhlutverkum hingað til. „Þetta verkefni var svo hræðilegt allt saman einhvern veginn. Ekki misskilja mig, þetta var ógeðslega gaman. Að fá svona stórt hlutverk, aðalhlutverk, í bíómynd sem er með þessu handriti og þessum leikstjóra, þetta var algjör draumur og bara lottóvinningur fyrir mig,“ segir hann.

„Ég man líka bara eftir því að eins og í prufunum fyrir myndina, það var prufað mikið. Ég fór í þrjár eða fjórar prufur, það var komin mikil keppni þarna í lokin. Ég man bara mig langaði svo mikið í þetta hlutverk og ég fór bara algjörlega „all in“ í þetta. Alltaf eftir hverja einustu prufu var ég að keyra heim og mér leið eins og ég væri bara alls ekki með þetta. Að fara í prufur er hræðilegt, ég hef ekki farið í margar prufur en þegar ég hef farið í prufur þá er það alltaf bara glatað. Ég veit ekki hvað gerist, mér bara líður illa í prufunum,“ segir hann.

„Ég hafði mikla trú á mér í þessu og þetta er eitthvað sem mig hefur alltaf langað að gera og langar að gera meira af. Ég er búinn að vera grín í mörg ár þannig það er ógeðslega gaman að fara bara í eitthvað allt annað,“ segir hann um hlutverkið.

Íhugaði að sækja um Leiklistarskólanum
Steindi segist stundum hafa pælt í hvort hann þurfi að mennta sig sem leikara. „Ég var að hugsa um að sækja um bara fyrir nokkrum árum. Mér fannst bara, það er leikarasnobb á Íslandi eða var miklu meira," segir hann. „En mig langaði oft, ég fer bara í þennan helvítis skóla, ég hlusta ekki á þetta helvítis væl. Svo bara var þetta einhvern veginn svolítið erfitt þegar þú ert bara kominn af stað,“ segir hann.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Steinda í heild sinni í spilaranum hér að ofan og í öllum helstu hlaðvarpsveitum.

 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Fór á hárgreiðslustofu og bað um „smákrimma-klippingu“

Kvikmyndir

Skvettu meira en 200 lítrum af blóði í Þorsta

Sjónvarp

Safna fyrir „gay“ sprautuklámmynd með vampírum

Tónlist

Kveikjari og hárlakk kláruðu dæmið hjá Steinda