Krefst betri upplýsingamiðlunar til erlends launafólks

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson - RÚV
Efling krefst betri upplýsingamiðlunar á covid.is á öðrum tungumálum en íslensku. Þetta kemur fram í bréfi sem stéttarfélagið sendi Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í morgun.

Í bréfinu segir að nú í morgun hafi mátt skilja upplýsingar á pólsku á vefnum sem svo að reglur sem giltu frá 15. júní til 31. ágúst giltu enn; samkomutakmörk miðuðust við 500 manneskjur, 2 metra reglan væri valfrjáls og að engar upplýsingar hafi mátt finna um notkun á andlitsgrímum.

Nú hafa upplýsingar á pólsku verið uppfærðar. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segist í samtali við fréttastofu fagna því og að bréfið hafi greinilega haft áhrif.

Engar upplýsingar skárri en rangar upplýsingar

„Það gengur ekki að fólk sé hvatt til að fara inn á covid.is til að finna upplýsingar en svo séu þar rangar upplýsingar á öðrum tungumálum en íslensku. Stjórnvöld hafa ekki ráðið við það sem ætti að vera einstaklega einfalt, að gæta þess að upplýsingar séu uppfærðar á fleiri tungumálum. Það væri þá skárra að sleppa því að hafa upplýsingar heldur en að hafa þær rangar,“ segir Sólveig Anna. 

Hún segir að að allur gangur sé á því hvort atvinnurekendur sjái um að miðla upplýsingum til starfsfólks. Það sé til dæmis óboðlegt að allur þessi tími hafi verið látinn líða síðan nýjar reglur voru settar á án þess að þær hafi verið uppfærðar á pólsku. „Þetta fólk greiðir sína skatta og sín gjöld og stjórnvöldum ber að tryggja að allir sem búa á þessu landi hafi aðgang að upplýsingum sem þessum,“ segir hún. 

Erfitt að sinna smitvörnum án upplýsinga

Í bréfinu minnir Efling á að aðflutt fólk á Íslandi telji hátt í 50.000 og að það sé „ómissandi hlekkur í virkum smitvörnum almennings“. Fólk geti ekki sinnt smitvörnum án þess að hafa greiðar upplýsingar um þær. 

Efling krefst þess „að stjórnvöld geri gangskör að því að tryggja skilvirkari vinnubrögð við birtingu mikilvægra upplýsinga á erlendum tungumálum í tengslum við COVID-19 á vef sínum og í gegnum aðra miðla“. Þá leggur Efling til að stjórnvöld sendi mikilvægar upplýsingar um smitvarnir í tölvupósti til þeirra sem eru í tengslum við aðflutt fólk, m.a. almenn félagasamtök og verkalýðsfélög.

 „Við erum ekki öll almannavarnir ef upplýsingarnar ná ekki til okkar allra,“ segir í lok bréfsins. 

Óljóst hvort lögum sé fylgt í samskiptum stjórnvalda við þá sem ekki skilja íslensku

Fréttastofa fjallaði nýlega um álit umboðsmanns Alþingis um samskipti stjórnvalda við fólk sem ekki skilur íslensku. Í álitinu kemur fram að umboðsmaður telji samskipti stjórnvalda við fólk sem ekki er íslenskumælandi vekja spurningar um hvort þau sinni nægilega vel þeim skyldum sem á þeim hvíla samkvæmt lögum. Þá bendir hann á að framkvæmd stjórnvalda á þessu sviði virðist sundurleit og að óvissa virðist ríkja innan stjórnsýslunnar um skyldur til að veita þjónustu á öðrum tungumálum en íslensku.  

Þar kemur einnig fram að mikilvægt sé að ákveða með skýrari hætti hver beri ábyrgð á að þýða lög og reglur og tryggja að borgarar hafi forsendur til að gera sér grein fyrir eigin réttindum og skyldum.  

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi