Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kampavínsbændur í krísu

05.08.2020 - 05:39
epa07805031 Sunlight shines on a bunch of grapes on a vine in Paimpol, Western France, 30 August 2019. The French Agriculture Ministry announced that France's wine output is expected to drop 12 percent from last year's figures, as this summer's heat wave took a heavy toll on the country's vineyards.  EPA-EFE/IAN LANGSDON
 Mynd: epa
Vínbændur og -framleiðendur í franska héraðinu Champagne hafa farið verr út úr COVID-19 faraldrinum en margir kollegar þeirra annars staðar, enda færri tilefni á þessum farsóttartímum til að skála í freyðandi gullnu einkennisvíni héraðsins, kampavíninu, en venja er til. Brúðkaupum og afmælisveislum er frestað unnvörpum um heim allan, veitingastaðir hafa verið meira og minna lokaðir mánuðum saman jafnt austan hafs sem vestan og kampavínssalan minnkað eftir því.

Verra en í kreppunni miklu

Vínframleiðendur í Champagne segjast hafa orðið af tekjum upp á jafnvirði 270 milljarða króna vegna farsóttarinnar það sem af er ári. Í maí, þegar útgöngubann var í gildi í Frakklandi og allir veitingastaðir lokaðir, minnkaði salan á þessum eðalveigum um 70 prósent.

„Við erum að ganga í gegnum krísu núna sem við teljum jafnvel enn verri en kreppuna miklu," hefur AP-fréttastofan eftir framámanni í kampavínsheiminum.

Henda þrúgunum eða eima spíra?

Tugir milljóna óseldra kampavínsflaskna liggja óhreyfðar í kjöllurum vínframleiðenda og greinar vínviðarins svigna undan gullnum og safaríkum þrúgum sem bíða þess eins að verða tíndar og pressaðar. Á því kann að verða lengri bið en þær þola og því hefur Kampavínsráðið, sem gætir hagsmuna um 16.000 vínbænda og -framleiðenda í Champagne, boðað til krísufundar 18. ágúst.

Þar á meðal annars að ræða hvort farga skuli umframuppskerunni eða senda þroskaðar þrúgurnar í brugghús þar sem gullinn safinn verður ekki bara gerjaður heldur eimaður og úr honum unnið handhreinsispritt. Þessi áform valda talsverðum titringi í kampavínsheimum og þarf engan að undra.

Handspritt úr kampavínsþrúgum „lítilsvirðing við móður náttúru“

Í viðtali við frönsku fréttastöðina Euronews sagði vínframleiðandi nokkur það hreinlega lítilsvirðingu gagnvart móður náttúru að nota þessar rómuðu þrúgur í handspritt.

Þá er einnig tekist á um það, hversu mikið kampavín skuli framleiða í ár. Þeir sem leggja mest upp úr víngerðinni vilja mæta samdrætti í sölu með því að minnka framleiðsluna til muna, til að þurfa ekki að selja þá munaðarvöru sem kampavín er fyrir slikk. Þeir sem hafa lífsviðurværi sitt af vínberjarækt fremur en víngerð óttast hins vegar áhrif þessa á afkomu sína.  

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV