Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ítalir hóta að banna Ryanair að fljúga til landsins

05.08.2020 - 19:21
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Samgönguyfirvöld á Ítalíu hótuðu í dag að banna írska flugfélaginu Ryanair að fljúga til landsins á þeim grundvelli að flugfélagið fylgi ekki sóttvarnarreglum.

Í tilkynningu frá samgönguyfirvöldum á Ítalíu kemur fram að flugfélagið virði að vettugi reglur um fjarlægð milli farþega og horfi framhjá þeim skilyrðum sem þarf að uppfylla til þess að fá undanþágu frá reglunum. Ef Ryanair framfylgi ekki sóttvarnarreglum verði flug félagsins til Ítalíu bönnuð með öllu. Farþegar sem nú þegar hafa tryggt sér flugmiða þurfi þá að finna aðrar leiðir til að komast til landsins. AFP-fréttastofan greinir frá.

Forsvarsmenn Ryanair hafna ásökununum staðfastlega og segja tilkynninguna frá ítölskum samgönguyfirvöldum hreinlega ranga. „Ryanair framfylgir sóttvarnarreglum fyllilega og farþegar geta treyst því að félagið leggur sig fram um að takmarka samgang farþega og áhafnar, bæði um borð og á flugvöllum,“ segir í svari flugfélagsins.