Bale verður eftir í Madríd

Mynd með færslu
 Mynd:

Bale verður eftir í Madríd

05.08.2020 - 19:30
Gareth Bale, leikmaður Real Madrid á Spáni, mun ekki ferðast með liðinu til Manchester-borgar þar sem það mætir Manchester City í Meistaradeild Evrópu á föstudag. Það þykir renna stoðum undir að hann sé á förum frá spænsku höfuðborginni.

Bale varð dýrasti leikmaður heims þegar Real keypti hann á 85 milljónir punda frá Tottenham á Englandi sumarið 2013 en hann hefur síðan átt misjafnan tíma í Madríd. Hann hefur unnið Meistaradeildina í fjórgang með liðinu og skorað í úrslitaleikjum keppninnar árin 2014 og 2018.

Zinedine Zidane virðist þó hafa lítið álit á kappanum og hvatti hann til að semja við Jiangsu Suning í Kína síðasta sumar en Bale hafnaði einnar milljón punda vikulaunum frá kínverska liðinu. Bale hefur aðeins leikið tuttugu leiki á yfirstandandi leiktíð, þar af aðeins einn af ellefu leikjum liðsins frá því að keppni hófst aftur eftir COVID-hlé í sumar.

Zidane kynnti í dag 24 manna hóp sem mun ferðast til Manchester að keppa við Manchester City í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar og er Bale ekki þar á meðal. Bale sé því töluvert neðarlega í goggunarröð franska þjálfarans og gæti verið á förum í sumar. Há laun hans, meiðslavandræði og fjárhagsvandræði víðs vegar um heim vegna kórónuveirufaraldursins hafa þó sitt að segja um áhuga á Walesverjanum.

Manchester City er með 2-1 forystu eftir sigur á Santiago Bernabeu í mars og þarf Real því að skora lágmark tvö mörk í Manchester á föstudag til að eiga möguleika á sæti í 8-liða úrslitum keppninnar.