Þríeykið fundaði með ríkisstjórninni

04.08.2020 - 12:48
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Alma D. Möller, landlæknir, Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, mættu á fund með allri ríkisstjórninni í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í Reykjavík í morgun. Þar voru rædd næstu skref í baráttunni við COVID-19 faraldurinn.

Þríeykið var á fundinum frá klukkan 10 til 11:15. Þá fóru þau af fundinum, sem hélt áfram og stendur enn. Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fréttamaður, var við Ráðherrabústaðinn í morgun og náði stuttlega tali af þríeykinu. Í því kom fram að þetta hafi verið almennur upplýsingafundur þar sem farið var yfir stöðuna og velta því upp hver næstu skref verði. 

Eftir því sem fréttastofa kemst næst þá var þetta í fyrsta sinn sem þríeykið funar með allri ríkisstjórninni, áður hafa þau hitt nokkra eða einn ráðherra í einu til að ræða um stöðuna varðandi útbreiðslu faraldursins. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir

Upplýsingafundur Almannavarna verður haldinn í dag klukkan 14:00 og verður hann sýndur í sjónvarpi, og á vefnum ruv.is, auk þess sem honum verður útvarpað á Rás 2. 

Þrjú ný innanlandssmit voru greind í gær og fólki í sóttkví fjölgaði um rúmlega 70 og eru nú 734 manns í sóttkví. 83 eru í einangrun hér á landi vegna sjúkdómsins. Tveir farþegar á leiðinni til landsins greindust með kórónuveiruna í og bíða nú niðurstöðu úr mótefnamælingu. Rúmlega þrjú þúsund sýni voru tekin í gær, þar af nærri 900 hjá fólki sem búsett er hér á landi.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi