Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tæp hálf milljón í sekt fyrir að rjúfa einangrun

04.08.2020 - 07:06
epa08581478 Victorian Premier Daniel Andrews addresses the media during a press conference in Melbourne, Victoria, Australia, 03 August 2020. Andrews announced new COVID-19 workplace restrictions. The Australian state of Victoria is under new lockdown measures after a surge in coronavirus disease (COVID-19) infections, with Melbourne residents subject to a night-time curfew.  EPA-EFE/JAMES ROSS AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
Daniel Andrews, ríkisstjóri Victoria, segir óásættanlegt að íbúar fylgi ekki reglum um einangrun. Mynd: EPA-EFE - AAP
Þeir íbúar Victoriu-ríkis í Ástralíu sem fylgja ekki reglum um einangrun þurfa frá og með deginum í dag að greiða hátt í hálfa milljón króna sekt.

Ástralska ABC sjónvarpsstöðin segir Daniel Andrews, ríkisstjóra Victoriu, hafa upplýst um þetta á fundi með fréttamönnum.

Þurfa nú þeir sem greinst hafa smitaðir af COVID-19 kórónuveirunni að greiða 4.957 ástralska dollara í sekt rjúfi þeir einagnrunina, eða um 479.000 kr.

Tilkynnt var um ákvörðunin eftir að greint hafði verið frá því að 11 hefðu látist af völdum kórónuveirunnar undanfarinn sólarhring og 439 ný smit hefðu greinst.

Sú staða kom upp á mánudaginn í síðustu viku að aldrei höfðu greinst fleiri kórónuveirutilfelli í Ástralíu. Hefur hópsmit í milljónaborginni Melbourne í Victoria, þar sem flest tilfellin hafa greinst, vakið miklar áhyggjur ástralskra yfirvalda undanfarið.

Yfirvöld í ríkinu hafa undanfarnar vikur barist við að koma böndum á smitútbreiðsluna. Sagði Andrews á fundinum með fréttamönnum í dag ástæðu þess að illa gangi vera þá að margir íbúar virtu ekki reglur um einangrun.

„Heilbrigðisyfirvöld og lögregla hefur barið á dyr hjá rúmlega 3.000 manns sem eiga að vera heima í einangrun. Í rúmlega 800 tilfellum var einstaklingurinn sem átti að vera í einangrun ekki heima,“ hefur ABC eftir Andrews sem sagði þetta fullkomlega óásættanlegt.

Þá sagði Shane Patton, lögreglustjóri Victoriu, lögreglu hafa þurft í fjórgang í síðust viku að brjóta bílrúður og draga fólk út úr bílum vegna þess að það virti ekki núverandi bönn og neitaði að upplýsa um nafn og heimilisfang.