Sjúkraþjálfari á Akureyri með COVID - Þrjátíu í sóttkví

04.08.2020 - 11:32
default
 Mynd: G. Starri Gylfason - RÚV
Þrjátíu skjólstæðingar hjá sjúkraþjálfunarstöðinni Stíg á Akureyri hafa verið sendir í sóttkví eftir að sjúkraþjálfari á stöðinni greindist með COVID-19. Eigandi stöðvarinnar segir lán í óláni að allir sjúkraþjálfarar stöðvarinnar nema einn hafi verið í sumarleyfi þegar smitið kom upp.

Tvö aðskilin mál á Akureyri

Eins og greint var frá um helgina eru tveir í einangrun og þrjátíu og fimm í sóttkví á Norðurlandi eystra. Um tvö aðskilin mál er að ræða. Fyrra tilfellið kom upp á föstudag þegar erlendur ferðamaður reyndist smitaður. Hann dvelur nú í farsóttahúsi á Akureyri ásamt fjölskyldu sinni.  Fjölskylda hans er í svokallaðri biðeinangrun en þau eru ekki með veiruna. Fjölskyldan hafði ekki dvalið á Akureyri áður en smitið kom upp. Seinna tilfellið kom upp á laugardag þegar sjúkraþjálfari hjá Stíg sjúkraþjálfun á Akureyri reyndist smitaður.

Aðrir sjúkraþjálfarar á stöðinni í fríi

Þuríður Sólveig Árnadóttir, eigandi stofunnar segir í samtali við fréttastofu að stofunni hafi verið lokað eftir að málið kom upp. Það sé nú í höndum yfirvalda en alls þurftu 30 skjólstæðingar sjúkraþjálfarans ásamt aðstoðarmanni á stofunni að fara í sóttkví. Hún segir að sem betur fari hafi allir aðrir sjúkraþjálfarar stöðvarinnar verið í sumarleyfi. Þá hafi starfsmenn stofunnar gætt að fyllstu sóttvörnum. Stofan verði lokuð næstu vikuna hið minnsta eða þar til aðrir starfsmenn mæta til vinnu eftir leyfi. Þuríður segir að ekkert sé vitað um uppruna smitsins en unnið sé að rakningu.  

Þrjú ný smit greind á Íslandi í gær

Þrjú ný innanlandssmit greindust í gær, þar af eitt hjá Íslenskri erfðagreiningu. Þá fjölgaði fólki í sóttkví um rúmlega 70, þeir eru nú 734. Tveir farþegar á leiðinni til landsins greindust með kórónuveiruna og bíða nú niðurstöðu úr mótefnamælingu. Rúmlega þrjú þúsund sýni voru tekin í gær, þar af nærri 900 hjá fólki sem búsett er hér á landi. Flestir þeirra sem eru í einangrun eru á aldrinum 18 til 29 ára. Þrír á áttræðisaldri eru með COVID-19 smit. Öll smitin virðast hafa verið á höfuðborgarsvæðinu. 

Óðinn Svan Óðinsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi