Óttast hópsmit á stærsta markaði borgarinnar

04.08.2020 - 13:28
epa08577317 A woman makes a payment with dollars in the surroundings of Petare, Caracas, Venezuela, 30 July 2020 (issued 31 July). The unstoppable inflation that Venezuela is experiencing has led to the inevitable de facto dollarization, to which President Nicolas Maduro has surrendered after years of criticism and rejection of the US currency, and the utmost defense of the Bolivar whose value currently is below minimums.  EPA-EFE/RAYNER PENA R
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Stærsti matarmarkaður Caracas, höfuðborgar Venesúela þykir nú hættusvæði fyrir kórónuveirusmit í borginni. Févana kaupmenn neita hins vegar að hætta að bjóða matvæli sín til sölu þar.

Um fimm milljónir manna búa í Caracas og búa margir þeirra við sult og seyru. Um 10.000 manns, bæði íbúar og kaupmenn flykkjast á markaðinn þá þrjá daga í viku hverri sem hann er opinn.

Áður en kórónuveirufaraldurinn hófst var ríkisrekni Coche heildsölumarkaðurinn opin sex daga vikunnar. Reuters segir markaðinn hafa reynst íbúum sannkölluð líflína í efnahagskreppu síðustu sex ára.

„Caracas reiðir sig á markaðinn,“ sagði Walter Rivera, framkvæmdastjóri hans, í viðtali fyrir nokkru. Um 17.000 tonn af matvælum er seld þar í mánuði hverjum.

Með grímu en virða ekki fjarlægðartakmarkanir

Þó að flestir beri andlitsgrímur á markaðinn eru reglur um fjarlægðatakmarkanir virtar að vettugi. Reuters segir þetta valda stjórn landsins miklum áhyggjum, en hún reynir nú að koma í veg fyrir að kórónuveirufaraldurinn beri heilbrigðiskerfi landsins ofurliði.

Þegar hafa rúmlega 20.000 kórónuveirusmit og 174 dauðsföll af völdum veirunnar verið staðfest í Venesúela. Stjórnarandstaða landsins og hjálparsamtök heilbrigðisstarfsfólk gagnrýna þó að ekki sé nóg gert af því að skima.

Jose Manuel Olivares, heilbrigðisráðgjafi stjórnarandstöðunnar, segir Coche markaðinn vera mögulegan stað fjölda hópsmita.

Í lok síðasta mánaðar takmörkuðu yfirvöld opnunartíma markaðarins enn frekar og má hann nú vera opinn frá dögun og til klukkan tvö síðdegis.

Nicolas Maduro, forseti Venesúela, fyrirskipaði strangt útgöngubann í mars og hægði það verulega á útbreiðslu veirunnar. Skortur á helstu nauðsynjavörum varð hins vegar þess valdandi að margir kaupmenn neyddust til að mæta á heildsölumarkaðinn á ný til að afla sér lifibrauðs.

Ef maður fer ekki út daglega þá borðar maður ekki,“ hefur Reuters eftir Moises Rojas sem selur gulrætur, kartöflur og lauk á markaðinum.

Nokkrir kaupmannanna sem Reuters ræddi við sögðust óttast smit á markaðinum. Þeir kváðust þó óttast meira að stjórnvöld stöðvi vinnu þeirra.

Fréttin hefur verið leiðrétt.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi