Júlí sjaldan verið eins kaldur á síðustu 20 árum

04.08.2020 - 20:04
Mynd með færslu
 Mynd: Ingvar Erlingsson - Aðsend mynd
Júlímánuður var fremur kaldur miðað við síðustu ár og umtalsvert kaldari en í fyrra. „Fremur kalt var á landinu í júlí miðað við það sem verið hefur á öldinni, ýmist sá næstkaldastur eða þriðjikaldastur síðustu 20 árin,“ segir í færslu á vef Veðurstofu Íslands.

„Þrátt fyrir þetta var tíð í aðalatriðum hagstæð. Vindur og úrkoma voru víðast nærri meðallagi,“ segir í færslunni. 

Meðalhiti í Reykjavík í júlí var 10,7 stig. Þetta er -1,3 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 10,1 stig sem er einnig neðan meðallags. Í fyrrasumar var júlímánuður sérlega hlýr en þá var meðalhiti í höfuðborginni 13,4 stig og 12,1 stig á Akureyri. 

Hæsti hiti í júlí mældist 24,8 stig á Egilstaðaflugvelli. Mest frost mældist -2 stig á Grímsstöðum á Fjöllum og Miðfjarðarnesi í blábyrjun mánaðarins. 

Í Reykjavík mældust 217,5 sólskinsstundir í júlí en á Akureyri voru þær 187,8. Sólskinsstundafjöldi var yfir meðallagi á báðum stöðunum. Þá var vindhraði á landsvísu nærri meðallagi. 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi