„Ég hugsa að ég haldi áfram að safna“

04.08.2020 - 23:16
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend
Björgvin Ingi Ólafsson, hlaupagarpur sem ætlaði að hlaupa heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu, segist sennilega ætla að halda áfram áheitasöfnun þrátt fyrir að hlaupinu hafi verið aflýst. Frímann Ari Ferdinandsson, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur, sagði í Síðdegisútvarpi Rásar 2 í dag að áhersla sé lögð á að halda áfram áheitasöfnun hlaupara með einhverjum hætti.

Verið er að vinna að útfærslu áheitasöfnunarinnar. „Við verðum áfram með opna áheitasöfnun á hlaupastyrkur.is. Við ætlum að reyna að bjóða fólki að skrá sig þar áfram og heita á hlaupara,“ segir hann. Frímann segir að hugsanlega geti hlauparar hlaupið á eigin vegum og þannig valið stað og stund sem hentar hverjum og einum. Nánari útfærsla áheitasöfnunarinnar verður kynnt þegar nær dregur. 

Tæpar 23 milljónir hafa safnast í heild

Tæplega tuttugu og þrjár milljónir hafa þegar safnast í áheitasöfnuninni. Af einstökum hlaupurum hefur Björgvin Ingi safnað hæstri fjárhæð, eða 734.400 krónum. Hann safnar áheitum til þess að styrkja Guggu vinkonu sína til ferðalaga en hún er bundin við hjólastól. Björgvin og Gugga urðu bæði 42 ára gömul í byrjun júní og verða því um það bil 42,2 ára gömul þegar maraþonið átti að fara fram. Þess vegna hafi hann ákveðið að hlaupa heilt maraþon, í stað styttri vegalengdar. „Við verðum maraþongömul þegar hlaupið átti að fram, mér fannst eins og þetta yrði of góð saga til þess að sleppa þessu,“ segir Björgvin í samtali við fréttastofu. 

Björgvin hefur staðið fast við bakið á Guggu í gegnum tíðina. Hann, ásamt fleiri vinum Guggu, starfrækja ferðsjóð sem hefur að markmiði að gera henni kleift að fara í ferðalag á ári hverju. Gugga, sem heitir fullu nafni Guðrún Jóna Jónsdóttir, varð fyrir líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur þegar hún var fimmtán ára gömul. Hún slasaðist alvarlega í árásinni og hefur verið fötluð og bundin við hjólastól síðan. 

Frá hlaupinu í hitteðfyrra.

Björgvin hefur æft af kappi frá því snemma á árinu og segist vera í hörkustandi. „Ég hlakkaði til hlaupsins og var búinn að leggja inn fyrir að mæta þarna eftir tvær vikur,“ segir hann. Björgvin hefur einu sinni hlaupið heilt maraþon en það var í Chicago. Þetta er hins vegar í fyrsta skipti sem hann hleypur heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu og hann segist hafa tekið undirbúningnum fyrir hlaupið í ár mun alvarlegar en í aðdraganda hlaupsins í Chicago. 

Hlakkar til að hætta að vera „leiðinlegur“

Að mati Björgvins hefur áheitasöfnunin gengið vel. Markmiðið er að safna milljón krónum og hann er vongóður um að það takist. Hann segist hafa verið duglegur að nálgast fólk frá því að söfnunin hófst. „Það gerist ekkert nema maður sé svolítið leiðinlegur,“ segir hann. Hann ætlar að halda áfram að hafa samband við vini og ættingja en hlakkar þó til að geta hætt að ómaka fólk í von um fleiri áheit. 

Björgvin segist stefna á að hlaupa heilt maraþon þrátt fyrir að viðburðinum hafi verið aflýst. „Ég hleyp mitt maraþon pottþétt þessa helgi, nema einhver tilmæli komi sem mæla gegn því,“ segir hann.

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi