73 látin hið minnsta og viðbúið að talan hækki

04.08.2020 - 22:27
epa08584104 A view of the damages after an explosion at the Beirut Port, Beirut, Lebanon, 04 August 2020. According to media reports citing official sources at least 40 people were killed and 2,500 injured in the explosion which also caused severe damage, while its cause is not yet known.  EPA-EFE/IBRAHIM DIRANI/DAR AL MUSSAWIR
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Samkvæmt líbönskum stjórnvöldum liggja að minnsta kosti 73 í valnum eftir öfluga sprengingu  sem varð á hafnarsvæðinu í Beirút um klukkan sex að staðartíma. Að minnsta kosti 3.700 særðust í sprengingunni.

Höggbylgjan sem sprengingin hratt af stað var svo öflug að hún fannst alla leið til Kýpur, sem er í rúmlega tvöhundruð kílómetra fjarlægð frá höfuðborg Líbanon. 

Eyðileggingin eftir sprenginguna er gríðarleg og nær jafnvel til útjaðars borgarinnar. Í Líbanon ríkir mikil ringulreið og sjúkrahús eru yfirfull af særðu fólki sem þarfnast bráðrar aðhlynningar. Samtökin Barnaheill hafa lýst því yfir að full ástæða sé til þess að óttast að börn hafi orðið viðskila við fjölskyldur sínar og séu ef til vill á vergangi, særð og felmtri slegin. 

Höggbylgjan á við jarðskjálfta af stærð 3,3

Samkvæmt gögnum bandarískra jarðvísindamanna hratt sprengingin sem varð í Beirút í dag af stað höggbylgju sem jafnast á við jarðskjálfta af stærðinni 3,3. Jarðeðlisfræðingurinn Don Blakeman segir í samtali við CNN að þó sé ekki fyllilega hægt að bera umfangið saman við jarðskjálfta af þessari stærðargráðu, því höggbylgjan varð við yfirborð jarðar. 

Hann segir að stærðargráðan mælist minni þegar um yfirborðshöggbylgjur er að ræða því stærstur hluti orkunnar sem leysist úr læðingi fer út í andrúmsloftið og á nærliggjandi byggingar. Ef sprengingin hefði orðið neðanjarðar, hefði stærðargráðan því hugsanlega mælst hærri.

Fjölmargir þjóðarleiðtogar hafa sent Líbönum samúðarkveðjur og boðið fram aðstoð sína. Guðlaugur Þór Þórðarson og Katrín Jakobsdóttir hafa bæði vottað samúð sína á Twitter og sá fyrrnefndi sagði Íslendinga reiðubúna að leggja Líbönum lið vegna atburðarins. 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi