Ástæðan fyrir því að ekki er unnt að láta hjólreiðamennina hjóla um götur Kaupmannahafnar á næsta ári er sú að keppnin skarast á við EM karla í fótbolta. Upphaflega áttu Frakklandshjólreiðarnar 2021 að standa yfir frá 2. - 25. júlí 2021, en keppni var flýtt eftir að Ólympíuleikarnir í Tókýó voru færðir til sumarsins 2021. Hjólreiðakeppni næsta árs mun því hefjast 26. júní og standa yfir til 18. júlí.
Þá verður hins vegar EM í fótbolta (sem líka var frestað frá 2020 til 2021). Af öryggisástæðum þykir ekki vænlegt að hafa leiki á EM í Kaupmannahöfn og að hjólreiðamenn Frakklandshjólreiðanna hjóli í gegnum borgina á sama tíma. Því hefur öllum plönum næsta árs með Danmörku og hjólreiðamótið verið slegið á frest. Stefnt er þó að því að Frakklandshjólreiðarnar 2022 muni hefjast í Kaupmannahöfn.
Í ár átti keppnin að fara fram í júlí, en vegna COVID-19 var henni frestað fram á haust. Hún mun hefjast í Nice 29. ágúst og lýkur venju samkvæmt í París. Loka dagleiðin verður hjóluð 20. september.