Þrír á áttræðisaldri í einangrun með COVID-19

03.08.2020 - 14:44
Frá skimun ÍE á Akranesi hjá slembiúrtaki 2. ágúst 2020.
 Mynd: Almannavarnadeild ríkislögregl
Þrír á áttræðisaldri eru í einangrun með COVID-19. Þetta kemur fram á covid.is. Langflestir þeirra sem eru í einangrun vegna kórónuveirunnar eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu eða 57. Þar eru líka flestir í sóttkví eða 524. Aðeins eru fjórir sem ekki eru skráðir með lögheimili á Íslandi í einangrun og tveir Íslendingar sem eru með skráð lögheimili erlendis.

Austurland er eina landssvæðið þar sem ekki hefur greinst smit.  Flestir eru í einangrun á Vesturlandi ef höfuðborgarsvæðið er undanskilið. Þar eru 46 í sóttkví og 9 í einangrun. 

Langflestir þeirra sem eru með staðfest smit eru á aldrinum 18 til 29 ára eða 26. 18 eru fertugsaldri og 15 á fimmtugsaldri.  Aðeins eru fimm í einangrun á aldrinum 13 til 17 ára.

Alls greindust átta ný innanlandssmit í gær og voru fimm af þeim í sóttkví, að því er fram kom á upplýsingafundi fyrr í dag.  Tveir greindust með kórónuveiruna við skimun á landamærunum en þeir bíða báðir eftir niðurstöðu úr mótefnamælingu. 

Rúmlega þrjú þúsund sýni voru tekin og var hlutfall jákvæðra sýna um 2,5 prósent. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi