Segir erfitt að svara mörgum af spurningum KSÍ

Mynd: RÚV / RÚV

Segir erfitt að svara mörgum af spurningum KSÍ

03.08.2020 - 15:15
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra var spurður á upplýsingafundi Almannavarna í dag hvenær Íslandsmótin í fótbolta gætu farið aftur á stað. Hlé var gert á keppni í fótboltanum á föstudag eftir að hertar sóttvarnareglur tóku gildi.

KSÍ hefur frestað Íslandsmótunum í fótbolta til 5. ágúst, en samkvæmt tilmælum sóttvarnarlæknis hefur ÍSÍ lagt til að hlé verði gert á íþróttastarfi fullorðinna í íþróttum með snertingu til 13. ágúst.

„Við fengum mjög ítarlegan spurningalista frá Knattspyrnusambandinu þar sem þeir eru að skoða alla möguleika á því hvernig þeir geta hagað starfseminni til þess að geta startað Íslandsmótunum aftur. Líka til að æfingar félaganna geti farið á fulla ferð. Það er mikið undir hjá knattspyrnuhreyfingunni. Það eru ekki bara Íslandsmótin, heldur líka Evrópukeppni félagsliða og það eru stórir landsleikir fram undan. Þannig við fengum ítarlegan spurningalista frá þeim og við erum að vinna við að svara. En staðan er bara mjög óljós og mjög erfitt að svara mörgum spurningum sem koma þarna fram,“ sagði Víðir Reynisson meðal annars á upplýsingafundi Almannavarna í dag.

Ekki víst að KSÍ verði ánægt með öll svörin

„Meðan við erum að meta stöðuna frá degi til dags getum við ekkert alltaf svarað mjög langt fram í tímann. En við munum hitta forsvarsmenn KSÍ á morgun. Vonandi getum við veitt þeim svör við einhverjum af þeim spurningum sem þau hafa. En það er ekki víst að þau verði öll á þá lund sem þau langar til,“ sagði Víðir.

Þá var Víðir jafnframt spurður að því hvort kæmi til greina að hefja keppni í fótboltanum á ný án áhorfenda. „Þetta snýr ekkert endilega að því vegna þess að það er 100 manna samkomubann. Leikir gætu alveg farið fram miðað við það. En það er hins vegar þessi tveggja metra regla og þessi nánd og smitvarnir sem eru miklu meira hamlandi í þessu en það hvort það geti verið áhorfendur á leikjunum eða ekki. Ég held að það sé mun minna mál,“ sagði Víðir Reynisson.