Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

FAA leggur til fjórar breytingar á hönnun 737 MAX

03.08.2020 - 22:10
Erlent · Boeing
An Ethiopian Airlines Boeing 737 Max 8 sits grounded at Bole International Airport in Addis Ababa, Ethiopia Saturday, March 23, 2019. The chief of Ethiopian Airlines says the warning and training requirements set for the now-grounded 737 Max aircraft may not have been enough following the Ethiopian Airlines plane crash that killed 157 people. Writing in Amharic reads "Ethiopian". (AP Photo/Mulugeta Ayene)
 Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP
Bandaríska flugmálastjórnin (FAA) hefur lagt til fjórar grundvallarbreytingar á hönnun flugvéla af gerðinni Boeing 737 MAX í því skyni að gera þær öruggari. 346 létust í tveimur flugslysum sem rekja má til galla í hugbúnaði flugvéla af þessari tegund. Vélar af gerðinni Boeing 737 MAX voru kyrrsettar í mars 2019.

Tillögurnar fjórar lúta að uppfærslu hugbúnaðar vélanna, endurbótum á birtingargjörva, endurbótum á nokkrum verkferlum flugáhafnar og breytingu á sumum rafleiðslna vélanna. 

Bandaríska flugmálastjórnin hefur lýst því yfir að ef Boeing takist að lagfæra vandamálin sem ollu flugslysunum tveimur, þá sé ekkert því til fyrirstöðu að aflétta kyrrsetningunni. Hins vegar er ljóst að það verður ekki gert fyrr en flugvélarnar standast kröfur flugmálastjórnarinnar. 

Prófanir á 737 MAX vélunum fóru fram í síðustu viku en flugvélaframleiðandinn hefur um nokkra hríð unnið að því að gera vélarnar flughæfar að nýju. Nú er ljóst að Boeing þarf að bregðast við tillögum FAA og halda svo áfram ítarlegri öryggisprófunum. Einnig þarf að leggja lokahönd á verkferla þjálfunar flugmanna áður en vélarnar verða flughæfar að nýju. Boeing hefur stefnt að því að kyrrsetningu vélanna verði aflétt í lok þessa árs en ljóst er að ferlið framundan mun taka talsvert langan tíma.