Þúsundir hafa flúið heimili sín vegna skógarelda

02.08.2020 - 19:25
Eldarnir geisa nálægt borginni Beaumont. - Mynd: EPA-EFE / EPA
Miklir gróðureldar geisa í Kaliforníu í Bandaríkjunum og þúsundir hafa þurft að flýja að heiman. Sumarið hefur verið heitt og þurrt og því er óttast að erfiðlega eigi eftir að ganga að ráða niðurlögum eldanna. 

Tilkynnt var um gróðureldana á föstudag í Cherry dal, nálægt borginni Baumont í Riverside-sýslu. Eldhafið hefur magnast upp og nær yfir fjörutíu og sex ferkílómetra, hið minnsta. Tæplega átta þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín og hefur eitt heimili brunnið til grunna. Hitinn hefur farið í fjörutíu og eina gráðu og landslagið er ekki auðvelt yfirferðar. 

Gróðureldar eru ekki óalgengir í Kaliforníu og voru mjög skæðir árið 2018, þegar áttatíu og fimm manns biðu bana. Þurrt og heitt er í ár og eldsmaturinn mikill og því er óttast að erfitt verði að ráða niðurlögum eldanna. 

Kórónuveirufaraldurinn gerir slökkvistarfið erfiðara en ella. Sýna þarf mikla varúð á slökkvistöðvum, stjórnstöðvum og eins á vettvangi til að koma í veg fyrir smit. Lögð verður áhersla á að slökkva eldinn úr lofti, með flugvélum og drónum. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi