Alls 569 eru nú í sóttkví, langflestir á höfuðborgarsvæðinu en þó í öllum landshlutum, nema á Austurlandi.
Á blaðamannafundi almannavarna sagði Þórólfur að flest smitin mætti rekja til ferðamanna, íslenskra og erlendra, og að enn væri talið að um sé að ræða tvo stofna hópsýkinga. Þá sagði hann að vel hefði tekist að ná utan um aðra þeirra en hin væri enn á flugi og angar hennar greindust víðsvegar um landið.
Dreifing smitanna áhyggjuefni
Þórólfur sagði að vissulega væri áhyggjuefni hve smitin væru dreifð og að oft væri ekki hægt að rekja nákvæmlega hvaðan þau kæmu. „Það getur bent til þess að dreifing veirunnar sé meiri en við höfum talið hingað til,“ sagði Þórólfur.
Niðurstöður ÍE benda ekki til margra smita úti í samfélaginu
Síðan Íslensk erfðagreining hóf að skima að nýju þann 29. júlí hafa um 2.500 sýni verið tekin og aðeins tveir greinst smitaðir. „Það bendir til að það sé ekki mjög útbreitt smit í samfélaginu og vonandi verður það svo áfram,“ segir Þórólfur.
Þá sagði Þórólfur að það væri ánægjulegt að einungis einn hafi veikst alvarlega og þurft að leggjast inn á sjúkrahús. Þó gætum við átt eftir að sjá alvarleg einkenni og sjúkrahúsinnlagnir næstu daga, enda taki yfirleitt viku fyrir sjúklinga að fá alvarleg einkenni.
Mikilvægt að fylgja leiðbeiningum
„Ég vil að lokum hvetja alla til að fara eftir þessum leiðbeiningum sem hafa verið í gildi frá því á föstudaginn var. Það er mjög mikilvægt því aðeins þannig mun okkur takast að ná tökum á þessari dreifðu sýkingu,“ sagði Þórólfur að lokum.