Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

36 smit áhafnar í Noregi - 400 farþegar í sóttkví

02.08.2020 - 19:40
Mynd: EPA-EFE / NTB SCANPIX
Þrjátíu og sex skipverjar skemmtiferðaskips í Noregi eru með COVID-19. 400 farþegar þurfa að fara í sóttkví. Skipafélagið er sakað um að hafa leynt ástandinu um borð. 

Fólkið var í siglingu á einu skipa norska skipafélagsins Hurtigruten sem sigldi meðfram ströndum Noregs. Það er nú í höfn í Tromsø á meðan heilbrigðisyfirvöld reyna að hafa uppi á um fjögur hundruð farþegum sem voru í síðustu siglingum skipsins. „Þetta er afar erfitt verkefni og útheimtir bæði úrræði og sérþekkingu,“ segir Kathrine Kristoffersen, læknir í Tromsø.

Einn veiku skipverjanna kom frá Filipsseyjum fyrir rúmum tveimur vikum. Talið er að farþegi sem greindist á miðvikudag hafi smitast af honum. 

epa08579016 A general view on the expedition ship MS Roald Amundsen at quay in Tromso, Norway, 01 Agust 2020. According to reports, 33 crew members on the expedition ship MS Roald Amundsen have been tested positive for coronavirus infection.  EPA-EFE/RUNE STOLTZ BERTINUSSEN NORWAY OUT
 Mynd: EPA-EFE - NTB SCANPIX

Nokkur reiði er í Noregi vegna málsins og hefur skipafélagið verið sakað um að hafa leynt því að starfsfólk um borð væri smitað.  

„Við áttum í viðræðum við Hurtigruta strax á miðvikudaginn og við ráðlögðum þeim að senda boð til allra farþeganna um að mögulega væri smit um borð í skipinu og þeim svo skipað í sóttkví,“ segir Line Vold, deildarstjóri hjá Landlækni Noregs. „Við vildum að farþegarnir hefðu fengið að vita þetta fyrr og úr því þarf að bæta,“ segir hún.

Daniel Skjeldam, framkvæmdastjóri Hurigruten, segir leitt að þessi staða hafi komið upp. „Við erum nú í nánu samstarfi við yfirvöld og smitvarnir. Við leggjum megináherslu á það og að annast áhöfnina sem var um borð og svo farþegana.“