Víkingar vísa ásökunum á bug

Mynd með færslu
 Mynd: Nordic Stadiums - https://www.nordicstadiums.com/

Víkingar vísa ásökunum á bug

01.08.2020 - 19:50
Knattspyrnudeild Víkings í Ólafsvík sendi frá sér yfirlýsingu á samfélagsmiðlinum Facebook í dag þar sem vísað er á bug þeim ásökunum að stjórnarmenn félagsins hafi vitað af umgengni leikmanns liðsins við einstakling sem smitaður var af COVID-19 áður en leikmaðurinn sjálfur greindist með veiruna.

Leikmaður liðsins greindist með kórónuveiruna sem veldur COVID-19 í gær. Hann hefur verið settur í einangrun og þá eru aðrir leikmenn liðsins og starfsfólk í sóttkví.

Sögusagnir hafa verið á kreiki að leikmaðurinn hafi fengið að æfa með liðinu í vikunni þrátt fyrir að vitað hafi verið að hann hafi umgengst manneskju sem bæri veiruna. Þessu neita Víkingar í yfirlýsingu sinni í dag.

„Í kjölfarið á því að leikmaður félagsins greindist með Covid 19 smit síðdegis í gær hafa verið uppi sögur um að stjórn og starfsfólk félagsins hafi verið meðvitað um að viðkomandi leikmaður ætti að vera í sóttkví án þess að hafa brugðist við á réttan hátt. Þessu vísum við algjörlega á bug,“ segir í yfirlýsingu Víkinga.

„Hið rétta er að um leið og umræddur leikmaður fékk vitneskju um að einstaklingur sem hann umgékkst væri komin í sóttkví, og var skömmu seinna greindur með smit, var leikmaðurinn tekinn út úr hópnum og í kjölfarið sendur í próf. Umræddur leikmaður, sem og aðrir sem að liðinu koma, fóru þá í sjálfskipaða sóttkví þar til niðurstöðurnar lágu fyrir.“ segir þar enn fremur.

Yfirlýsing Víkings

Að gefnu tilefni vilja stjórn og starfslið Víkings Ó. koma eftirfarandi á framfæri.

Í kjölfarið á því að leikmaður félagsins greindist með Covid 19 smit síðdegis í gær hafa verið uppi sögur um að stjórn og starfsfólk félagsins hafi verið meðvitað um að viðkomandi leikmaður ætti að vera í sóttkví án þess að hafa brugðist við á réttan hátt. Þessu vísum við algjörlega á bug.

Hið rétta er að um leið og umræddur leikmaður fékk vitneskju um að einstaklingur sem hann umgékkst væri komin í sóttkví, og var skömmu seinna greindur með smit, var leikmaðurinn tekinn út úr hópnum og í kjölfarið sendur í próf. Umræddur leikmaður, sem og aðrir sem að liðinu koma, fóru þá í sjálfskipaða sóttkví þar til niðurstöðurnar lágu fyrir.

Vissulega má færa rök fyrir því að ákjósanlegt hefði verið að stjórnendur félagsins hefðu fengið vitneskju um málsvexti fyrr og við hörmum að svo hafi ekki verið. Því verður hinsvegar ekki breytt úr þessu og ekkert annað í stöðunni en að líta fram veginn, virða reglur um sótthví og koma svo sterkari til baka að tveimur vikum liðnum.

Það ætlar sér enginn að smitast af þessari veiru og því ekki til neins að kenna einum né neinum um. Tilfellið er komið í hendur smitrakningarteymis og líkt og fram kom í fyrri yfirlýsingu munum við fylgja fyrirmælum þeirra í einu og öllu.

Tengdar fréttir

Íþróttir

Leikmaður Víkings í Ólafsvík með COVID-19