Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Epstein sagður hafa ætlað að kúga Andrés prins

01.08.2020 - 08:15
Mynd með færslu
 Mynd: BBC
Kynferðisbrotamaðurinn Jeffrey Epstein, sem svipti sig lífi í fangaklefa síðasta sumar eftir að hafa verið ákærður fyrir mansal, er sagður hafa reynt að safna gögnum um meint kynferðisafbrot Andrésar prins. Epstein er meðal annars sagður hafa fengið stúlku undir lögaldri til að hafa mök við prinsinn á einkaeyju og skipað henni síðan að segja sér frá samskiptum sínum við prinsinn.

Þetta kemur fram í gögnum sem gerð voru opinber í tengslum við mál Ghislaine Maxwell. Gögnin voru lögð fram í einkamáli Virginiu Roberts Guiffre gegn Maxwell og Epstein árið 2015. 

Guiffre hefur sakað prinsinn um að hafa nauðgað sér. Prinsinn vísaði því á bug á alræmdu viðtali við BBC þar sem hann hefði verið á pizzustað í Woking . Ekki er vitað hvort umrædd stúlka á einkaeyjunni er Guiffre.

Guardian segir að Epstein hafi skipað stúlkunni, sem ekki er nafngreind í gögnunum, að veita prinsinum allt sem hann vildi og segja sér síðan frá kynferðisbrotunum. Í málsskjölunum er því haldið fram að Epstein hafi sankað að sér gögnum um valdamikið fólk, allt frá forstjórum til forseta, og  nýtt þau sjálfum sér til framdráttar.

Í gögnunum er jafnframt fullyrt að Andrés prins hafi beitt sér fyrir því að Epstein hlyti vægari dóm þegar hann var að reyna að semja um refsingu fyrir barnaníð. 

Guardian hefur eftir ónafngreindum vini prinsins að dómstóll hafi þegar úrskurðað að nálgast skyldi þessar upplýsingar af varúð.  „Ásakanir eru ekki það sama og staðreyndir. Við skulum sjá hversu mikið er að marka þetta því þegar allt kemur til alls þá vantar sannanir.“

Þá hefur Guardian eftir honum að ekkert sé hæft í þeim ásökunum að prinsinn hafi reynt að beitt sér til að hafa áhrif á refsingu Epstein. Fram kemur í gögnunum að Epstein hafi haldið umræddri stúlku í kynlífsþrælkun á árunum 1999 til 2002 eða þar til  henni tókst að flýja til annars lands. 

Ghislaine Maxwell situr nú í gæsluvarðhaldi og bíður þess að koma fyrir dóm vegna ásakana um að hún hafi aðstoð Epstein við að klófesta ungar stúlkur og halda þeim í mansali.