Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Brenna í mannlausum Herjólfsdal

Engin Þjóðhátíð var haldin í Eyjum 2020 vegna Kórónuveirufaraldursins. Kveikt var á brennu í Herjólfsdal að gömlum sið.
 Mynd: Ólöf Ragnarsdóttir - RÚV
Eldur var borinn að brennu í tómum Herjólfsdal um klukkan 22 í kvöld.

Á vef Eyjafrétta kemur fram að dalnum hafi verið lokað klukkutíma áður fyrir akandi og gangandi umferð. Fólk í Vestmannaeyjum var eindregið hvatt til að njóta brennunnar úr fjarska.

Það gerði meðal annarra ÓlöF Ragnarsdóttir fréttamaður RÚV sem tók meðfylgjandi ljósmynd. 

Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmanneyjum sagði í kvöldfréttum RÚV að það væri mjög skrýtið að Herjólfsdalur væri mannlaus um Verslunarmannahelgi. Það hafi ekki gerst í 105 ár.

Þjóðhátíð var fyrst haldin árið 1874 til að fagna þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar. Efnt var til slíkra hátíða um allt land af því tilefni en Vestmanneyingar einir héldu í hefðina.

Frá árinu 1901 hefur Þjóðhátíð verið haldin árlega utan áranna 1914 og 1915 meðan á heimsstyrjöldin fyrri stóð og nú 2020 þegar kórónuveirufaraldurinn kom í veg fyrir hana.