Aðeins einn þeirra sem greindust í gær var í sóttkví

01.08.2020 - 16:21
Mynd: RÚV / RÚV
Aðeins einn af þeim sjö sem greindust smitaðir af COVID-19 innanlands í gær var í sóttkví, samkvæmt heimildum frá almannavörnum. Eins og fram kom fyrr í dag er enn beðið eftir niðurstöðum úr einu sýni úr landamæraskimun. 58 eru nú í einangrun og 454 í sóttkví.

Bíða eftir niðurstöðum úr raðgreiningu

Enn er beðið eftir raðgreiningu á sumum sýnanna frá því í gær og nú stendur yfir smitrakning vegna nýju smitanna. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna fyrr í dag. Hann sagði að niðurstöður úr raðgreiningum bentu til þess að um tvo stofna hópsýkinga væri að ræða.  

Þórólfur sagði að um það bil 500 sýni hefðu verið tekin á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans í gær. Frá því Íslensk erfðagreining hóf að skima í lok júlí hefði starfsfólk fyrirtækisins tekið um 1.900 sýni og tveir greinst jákvæðir. Þórólfur sagði það benda til þess að ekki væri mikið um smit úti í samfélaginu.  

„Held við séum í nokkuð góðum málum“

Þá sagðist hann eiga von á fleiri jákvæðum greiningum næstu daga og minnti á að það tæki eina til tvær vikur að sjá árangur af þeim aðgerðum sem gripið var til eftir að smitum tók að fjölga að nýju.  

Þórólfur lauk máli sínu á bjartsýnum nótum. „Allt bendir til að við séum kannski að ná tökum á hópsýkingunum og að þetta sé ekki að fara úr böndunum,“ sagði hann. „Ég held að við séum bara í nokkuð góðum málum og munum halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið að feta fram að þessu.“ 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi