„Úff, hvað er ég búinn að gera?“

Mynd: RÚV / RÚV

„Úff, hvað er ég búinn að gera?“

31.07.2020 - 09:14
Jón Arnar Magnússon, Ólympíufari, er meðal gesta í þættinum Ólympíukvöld á RÚV í kvöld. Í þættinum rifjar Jón Arnar meðal annars upp þegar hann skartaði skeggi í fánalitum Íslands á Ólympíuleikunum 1996 í Atlanta.

Jón Arnar keppti í tugþraut á leikunum og hafnaði í tólfta sæti. „Hvað var maður brattur að mála þetta skegg. Ég í rauninni skil það ekki enn þann dag í dag,“ segir Jón um skeggið sem margir muna eftir. Fjallað verður um Ólympíuleikana 1996 í þættinum í kvöld.

„Það var bara eitthvað stress, að gera eitthvað. Og ég gleymi því aldrei, það var þarna fyrsta skotið þegar var verið að kynna okkur. Það var risaskjár hinu megin á vellinum. Svo kemur myndavélin fyrir framan og ég horfi á myndavélna og svo bara horfi ég á sjálfan mig; Úff, hvað er ég búinn að gera? En fólk man eftir þessu, sem betur fer,“ segir Jón.

Í þættinum í kvöld verður einnig meðal annars fjallað um bandaríska spretthlauparann Michael Johnson sem vann gull í bæði 200 og 400 metra hlaupi og tyrkjann Naim Süleymanoğlu sem vann þrenn gullverðlaun í lyftingum á leikunum.

Ólympíukvöld er á dagskrá RÚV í kvöld klukkan 21:05. Brot úr þættinum má sjá í spilaranum hér að ofan.