Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Borgaði fimm daga gistingu með stolnu kreditkorti

31.07.2020 - 17:25
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Landsréttur staðfesti í vikunni gæsluvarðhald yfir karlmanni sem grunaður um stórtækan þjófnað, rán og fíkniefnasölu. Hann er meðal annars sagður hafa greitt fyrir fimm daga gistingu á hótel KEA uppá 250 þúsund krónur. Á hótelherberginu fannst þýfi úr innbrotum á Blönduósi. Hann er auk þess sagður hafa reynt að svíkja út vörur með sama greiðslukorti hjá NOVA en það tókst að stöðva þá greiðslu.

Maðurinn var handtekinn eftir innbrot í heilsugæslustöð á höfuðborgarsvæðinu fyrir rúmri viku.

Hann virtist hafa komist inn með því að brjóta glugga og skorið sig á glerbrotum því lögreglumenn sáu blóð víðsvegar um heilsugæslustöðina. Þeir fundu síðan manninn þar sem hann hafði falið sig á bak við hurð í einu herbergi. 

Í gæsluvarðhaldsúrskurðinum eru önnur brot sem maðurinn er grunaður um tíunduð. 

Hann er meðal annars sagður hafa brotist inn í verslun á Blönduósi í byrjun júní og stolið þaðan myndavél, Ipad mini og 8.000 krónum úr afgreiðslukassa. Þaðan fór hann síðan til Akureyrar þar sem hann gisti á Hótel KEA og greiddi fyrir gistinguna með stolnu kreditkorti.  Hann játaði við yfirheyrslu hjá lögreglu að hafa stolið kreditkortinu.

Aðeins nokkrum dögum seinna var hann gripinn í Reykjavík þar sem hann reyndi að stela vörum úr Hagkaup í Skeifunni. Daginn eftir er hann sagður hafa brotist inn í Bust Hostel þar sem hann skráði sig meðal annars inn á Facebook-síðu sína og stal þaðan úlpu. 

Tveimur dögum seinna er hann sagður hafa brotist inn í íbúð í Reykjavík þar sem húsráðandi var sofandi. Hann er sagður hafa skilið eftir sig notaða sprautunál og stolið þaðan greiðslukorti sem hann notaði til að greiða fyrir tvær leigubílaferðir. 

Þann 19. júní er maðurinn talinn hafa brotist inn í ótilgreindan stað í Reykjavík. Hann er sagður hafa hulið andlit sitt með hvítri grímu og vitni sáu mann koma þaðan út með tvo svarta plastpoka. Þegar lögreglan handtók manninn fannst á honum hvít og svört gríma. Hann neitaði að tjá sig um sakarefnið við yfirheyrslu hjá lögreglu.

Í lok síðasta mánaðar er hann sagður hafa otað hníf að manni í íbúð í Reykjavík og rænt af honum bæði síma og silfurhring. Tvö vitni voru að ráninu. Hann er einnig grunaður um að hafa veist að manni með ofbeldi ásamt tveimur öðrum og skilið viðkomandi eftir hreyfingarlausan. 

Um miðjan þennan mánuð er hann loks sagður hafa stolið farsíma, bíllykli og fjarstýringu að bílageymslu af húsráðanda þegar hann var sofandi. 

Maðurinn ók á brott á bílnum og þegar lögregla hafði afskipti af honum hafði hann sett önnur skráningarnúmer á ökutækið. 

Fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurðinum að maðurinn hafi lokið afplánun í byrjun maí á dómi sem hann hlaut fyrir þjófnað og brot á vopnalögum . Hann sé með mikinn fíkniefnavanda og veruleg hætta sé á því að hann haldi áfram brotum sínum gangi hann laus.  Hann hafi sýnt einbeittan brotavilja og ekkert lát virðist á brotahrinu hans.

Var maðurinn úrskurðaður í gæsluvarðhald til 20. ágúst.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV