Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Tvö verslunarsvæði, mismunandi þarfir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Um 85% höfuðborgarbúa hafa sótt verslun og þjónustu á Laugavegi undanfarið ár. Þetta er meðal niðurstaðna könnunar sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið og birtast í blaðinu í dag.

Svarhlutfall í könnuninni var um 55% af 2600 manna úrtaki. Flest þau sem heimsóttu Laugaveg fóru þangað akandi eða rúmlega tveir af hverjum þremur. Hlutfall þeirra sem nota einkabílinn hækkar eftir aldri. Fáir leggja þó bíl sínum við Laugaveginn sjálfan.

Gleðiefni hve margir heimsækja Laugaveg

Haft er eftir Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur formanni skipulags- og samgönguráðs borgarinnar að gleðiefni sé hversu margt fólk líti á Laugaveg sem hverfiskjarna.

Hún bendir jafnframt á að fólk sé ekki aðeins að heimsækja Laugaveg heldur einnig göturnar í kring þar sem einnig sé mikil verslun.

Nú stendur til að allur Laugavegur upp að Hlemmi verði varanleg göngugata til viðbótar við þann hluta hans, Skólavörðustígs og Vegamótastígs sem þegar er ætlaður gangandi eingöngu.

Vill blása lífi í göngugötuna í Mjódd

Verslun og veitingasala í bland við gjörninga og styttri viðburði laðar fólk að Mjóddinni í neðra Breiðholti. Þetta segir í greinargerð Kolbrúnar Baldursdóttur borgarfulltrúa. Morgunblaðið greinir frá.

Kolbrún hvetur til þess að göngugatan í verslunarkjarnanum verði gædd meira lífi. Undanfarið hefur verið unnið að endurbótum utandyra á svæðinu sem var orðin brýn þörf á.

Kolbrún leggur til að gengið verði að nýju til samninga milli Reykjavíkurborgar og Svæðisfélags göngugötunnar með hagsmuni Mjóddarinnar að leiðarljósi. Fyrri samningur rann út í árslok 2018.