Tíu greindust með virkt COVID-19 smit í gær, allt voru það innanlandssmit og virk smit í landinu eru nú 39. Tveir bíða niðurstaðna úr mótefnamælingum.
Þetta kemur fram í tölulegum upplýsingum á vefsíðunni Covid.is.
Níu af jákvæðu sýnunum voru greind á Sýkla- og veirufræðideild Landspítala og eitt hjá Íslenskri erfðagreiningu. Frá því að fyrsta smitið greindist hér á landi hafa 1.872 smit verið staðfest í samtals 130.600 synatökum. Þar af voru 61.269 sýni tekin á landamærunum.
Í morgun greindi RÚV frá því að einn hefði verið lagður inn á Landspítala með COVID-19. Þetta er fyrsta innlögnin á sjúkrahús í tengslum við faraldurinn síðan í vor.