Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tilgátuhús í smíðum í Súganda

DCIM\100MEDIA\DJI_0013.JPG
 Mynd: Ingrid Kuhlman
Fornminjafélag Súgandafjarðar ætlar nú í ágústbyrjun að kenna hvernig á að hlaða hús úr torfi og grjóti.

Frá þessu er greint á vef Bæjarins besta.

Frá því sumarið 2019 hefur Fornminjafélagið unnið að byggingu landnámsskála í Botni í Súgandafirði. Skálinn er tileinkaður landnámsmanninum Hallvarði súganda.

Hann var einn þeirra sem barðist við Harald hárfagra Noregskonung í Hafursfjarðarorrustu. Hallvarður hélt þaðan til Íslands og nam land þar sem nú heitir Súgandafjörður. Hann er sagður hafa búið að Botni og liggi heygður í hólnum Súgandi. 

Skálinn er tilgátuhús sem byggir á uppgreftri á Grélutóftum í Arnarfirði og teiknaður af arkitektastofunni Argos. Í sumar á að ljúka fyrsta hluta skálans, hlaða veggi hans og grjótvegg umhverfis hann.

Á næsta ári stendur til að loka húsinu eftir að grindin sem heldur uppi þaki þess verður reist. Að síðustu verður klárað innanstokks, þar á meðal bekkir og rúmstæði að ógleymdum langeldinum.

Það er Kristín Auður Kelddal Elíasdóttir hleðslumaður og skrúðgarðyrkjumeistari sem kennir áhugasömum handbragðið við að hlaða hús úr torfi og grjóti.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV