Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Leita ummerkja um líf á Mars

30.07.2020 - 02:42
epa04890874 A handout picture released by NASA on 20 August 2015 shows a low-angle self-portrait of NASA's Curiosity Mars rover  vehicle above the 'Buckskin' rock target, in the 'Marias Pass' area of lower Mount Sharp on Mars,
Könnunarfarið Curiosity á yfirborði Mars. Mynd: EPA - NASA/JPL-Caltech/MSSS
Geimfari á vegum NASA skotið á loft frá Canaveral höfða á Flórída í dag.

Áfangastaðurinn er reikistjarnan Mars og tilgangurinn er að komast að hvort líf kunni að hafa þrifist þar eða hvort það leynist þar jafnvel enn.  

Gert er ráð fyrir að geimfarið nái til rauðu plánetunnar um miðjan febrúar á næsta ári. Það yrði í fimmta sinn síðan árið 1997 sem far nær þangað.

Um borð eru lítil þyrla og marsbíll kallaður Perseverance, gæti heitið Þrautseigur upp á íslensku, sem er á stærð við smájeppa. Þessi tæki eiga að rannsaka reikistjörnuna, leita að ummerkjum um líf og rannsaka hvort unnt sé að framleiða súrefni þar.

Perserverance yrði þá þriðji marsbíllinn á Mars en Kínverjar sendu sinn fyrsta af stað í síðustu viku og Curiosity á vegum NASA hefur ekið þar um síðan 2012.

Perserverance er ný og endurbætt útgáfa hans, hraðskreiðari, búinn öflugri tölvubúnaði og getur farið 200 metra á dag. Hann er búinn hljóðnemum sem vísindamenn NASA vonast til að nemi hljóðheim reikistjörnunnar í fyrsta sinn.

Á fjórða hundrað vísindamanna hvaðanæva úr heiminum taka þátt í verkefninu sem ætlað er að taki um tvö ár.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV