Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Funda um almannavarnastig í dag

30.07.2020 - 15:05
Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd / Rúv
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, mun funda með ríkislögreglustjóra og öllum lögreglustjórum landsins í dag um hvort þörf sé á að hækka almannavarnastig vegna fjölgunar kórónuveirusmita hér á landi.

Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir vegna heimsfaraldurs kórónuveiru þann 6. mars. Það var svo lækkað frá neyðarstigi niður á hættustig þann 25. maí. Neyðarstig er hæsta viðbragðsstig almannavarna vegna heimsfaraldurs. Stigin eru þrjú; óvissustig, hættustig og neyðarstig.

Áslaug sagði á fundi ríkisstjórnar og sóttvarnayfirvalda um breyttar sóttvarnir í hádeginu að vinnan á landamærunum hafi almennt gengið vel. „Áskorarnirnar snúast þar fyrst og fremst um Íslendinga sem koma erlendis frá eða aðra sem koma hingað til langdavala og með veiruna inn í samfélagið. Það er þess vegna sem við förum nú í aðeins breyttar reglur varðandi landamærin,“ segir Áslaug. 

„Við erum ekki komin á neyðarstig almannavarna. Við eigum fund, ásamt ríkislögreglustjóra og öllum lögreglustjórum landsins í dag vegna þess, til umræðu um hvort þörf sé á slíku eða hvort við metum aðeins stöðuna í nokkra daga. Það er auðvitað stór ákvörðun að fara aftur á slíkt og ekki ljóst hvort þörf sé á því,“ segir Áslaug.