Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Brasilía opnuð fyrir fljúgandi ferðalanga

30.07.2020 - 03:49
Mynd með færslu
 Mynd: pixabay.com
Erlendir ferðamenn mega nú heimsækja Brasilíu á ný en eingöngu komi þeir fljúgandi. Áfram verður óheimilt að koma þangað sjó- eða landleiðis næstu þrjátíu daga.

Nú eru fjórir mánuðir síðan takmarkanir á komu ferðamanna til landsins voru settar á. Með því að leyfa flug þangað að nýju vonast stjórnvöld til að blása nýju lífi í ferðamannaiðnaðinn sem er í andaslitrunum vegna kórónuveirufaraldursins.

Ákvörðunin er tekin þrátt fyrir að faraldurinn geisi enn af fullum þunga í Brasilíu sem hefur orðið næstverst allra ríkja fyrir barðinu á veirunni. Nú hafa yfir 2,5 milljónir smitast og um 90 þúsund látist af völdum hennar.