
Tyrkir herða lög um samfélagsmiðla
Lögin ná til samfélagsmiðla sem birta að minnsta kosti milljón færslur á dag frá tyrkneskum notendum. Samkvæmt þeim verða fyrirtæki sem reka miðlana að hafa forsvarsmenn í Tyrklandi sem sjá um að fjarlægja óæskilegt efni samkvæmt úrskurði dómstóla. Sé þetta vanrækt eiga fyrirtækin háar sektir yfir höfði sér. Efni tyrknesku notendanna á að vistast á þarlendum netþjóni. Fallist fyrirtækin ekki á að fylgja lögunum eiga þau sektir yfir höfði sér eða að efni miðilsins verður gert óaðgengilegt.
Þingmenn Réttlætis- og þróunarflokks Erdogans forseta og Tyrkneska þjóðernishreyfingin, MHP, samþykktu lagafrumvarpið eftir að deilt var um það fram undir morgun. Stjórnarandstöðuflokkar og mannréttindahópar gagnrýna það harðlega. Þeir óttast að tilgangurinn sé að hefta tjáningarfrelsi í Tyrklandi. Einnig verði aðgangur almennings heftur að hlutlausum upplýsingum eða efni þar sem stjórnvöld eru gagnrýnd. Minnt er á að þúsundum Tyrkja hafi verið refsað fyrir að móðga Erdogan forseta á samfélagsmiðlum.