Ólíklegt að Arnar hlaupi í Reykjavíkurmaraþoninu

Mynd: RÚV / RÚV

Ólíklegt að Arnar hlaupi í Reykjavíkurmaraþoninu

29.07.2020 - 15:12
Margra ára undirbúningur Arnars Péturssonar til að ná Ólympíulágmarki í maraþonhlaupi varð að engu í vor þegar kórónaveiran tók heiminn í gíslingu. Það rofaði þó aðeins til í gær, þegar tilkynnt var að maraþonhlauparar gætu reynt á ný við Ólympíulágmarkið frá og með 1. september.

Arnar Pétursson er fremsti götuhlaupari Íslands og hefur síðustu ár unnið markvisst að því að fá þátttökurétt í maraþoni á Ólympíuleikunum í Tókýó.

„Þegar ég byrja að reyna að reyna að stefna á Ólympíuleika að þá er ólympíulágmarkið svona tvær klukkustundir og 18-19 mínútur. Í apríl á síðasta ári breyta þeir reglunum og þá gæti ég verið á 80. sæti á heimslistanum og komist inn á tveimur klukkustundum og 15-16 mínútum. Síðan er ég að fara að hlaupa maraþon apríl á þessu ári, var búinn að hlaupa hálft maraþon á undan því á 66 mínútum, í slæmum aðstæðum. Þá bara leit allt út fyrir að ég væri að fara að hlaupa á 2:15-2:16 og var bara þvílíkt bjartsýnn. Var búinn að æfa fyrir þetta í mörg mörg ár. Svo er því kippt undan manni og það breytir allri sýninni á þetta,“ segir Arnar.

Eftir að kórónuveiran tók völdin í heiminum og ákveðið var að fresta Ólympíuleikunum í ár til næsta sumars, var jafnframt ákveðið að loka lágmarkatímabilinu í frjálsum íþróttum fyrir Ólympíuleikana í apríl. Til stóð að glugginn til að ná lágmarki inn á leikana í Tókýó 2021 myndi ekki opna á ný fyrr en 1. desember en nú hefur verið ákveðið að opna þann glugga þremur mánuðum fyrr fyrir maraþonhlaupara. Vandinn er bara sá að fá maraþonhlaup eru á dagskrá í haust vegna COVID-19.

„Núna er ennþá Frankfurtmaraþonið á dagskrá. Ég bjó þar í átta mánuði í námi svo ég þekki aðeins borgina. Á sama degi er svo maraþon á Íslandi í Félagi maraþonhlaupara svo ef Frankfurt-valmöguleikinn dettur út á ég þá allavega möguleika á því að hlaupa á Íslandi.“

Fréttirnar í gær með lengingu lágmarkatímabilsins breytir öllum plönum Arnars, sem mun því ólíklega hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu í ár.

„Núna er bara planið að breyta svolítið um fókus og æfa fyrir októbermaraþon og sjá bara hvernig það gengur. Vonandi að slá Íslandsmetið þar. Síðan setur þetta það strik í reikninginn að maður getur líklega ekki farið í svona háfjallaæfingabúðir eins og maður hefur gert. Ég hef verið í Kenýa alltaf í byrjun árs og í Bandaríkjunum í 2500 metra hæð í á veturnar. Það er ólíklega að fara að gerast svo maður þarf bara að fara að berjast í gegnum íslenska veturinn, ég hlakka til þess.“