Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Vertar í Eyjum í gírnum - dansleikur fær grænt ljós

Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Ragnarsdóttir - RÚV
Engin þjóðhátíð verður í Vestmannaeyjum en Eyjamenn eru hvergi af baki dottnir, ef marka má fundargerð bæjarráðs í dag. Fjöldi veitingastaða fengu þar leyfi til að selja áfengi utandyra auk þess sem brenna og flugeldasýning fékk grænt ljós af hálfu bæjarins. Þá hefur verið boðað til balls á laugardagskvöld.

Svava Kristín Grétarsdóttir, íþróttafréttamaður á Stöð 2, sótti um leyfi fyrir dansleiknum. Hann á að standa frá klukkan ellefu á laugardagskvöld til klukkan þrjú aðfaranótt sunnudags, ef marka má fundargerð bæjarráðs. 

Ekkert áfengi verður selt á staðnum en samkvæmt reglum um samkomutakmarkanir verða veitingastaðir og barir að loka klukkan 23.  „Það á eftir að koma svar frá heilbrigðiseftirlitinu og það er engin að fara að græða á þessu. Allur ágóði rennur til ÍBV,“ segir Svava Kristín í samtali við fréttastofu.

Bæjarráð veitti umsókninni jákvæða umsögn að því gefnu að farið yrði að skilyrðum sýslumanns og leyfi fengist frá hlutaðeigandi eftirlitsaðilum. 

Nokkrir veitingastaðir hafa sömuleiðis óskað eftir leyfi hjá bænum til að selja áfengi utandyra. Til að mynda The Brothers Brewery sem vilja selja áfengi í tjaldi frá klukkan 14 til 18 alla verslunarmannahelgina. Kráin vill sömuleiðis selja áfengi utandyra frá klukkan 10 á morgnana til 23 um kvöldið  og 900 veitingar vilja selja áfengi frá klukkan 14 til 20 laugardag og sunnudag.

Bæjarráð veitti öllum þessum stöðum leyfi með fyrirvara um jákvæða umsögn hlutaðeigandi eftirlitsaðila.  Þá gaf bærinn sömuleiðis grænt ljós á að hafa stóra brennu við Fjósaklett á miðnætti á föstudag en þar verður líka flugeldasýning. 

Fram kom í hádegisfréttum RÚV að búist væri við talsverðum fjölda í Vestmannaeyjum um helgina. Arndís Bára Ingimarsdóttir, settur lögreglustjóri í Eyjum, sagði að lögreglan yrði með talsverðan viðbúnað. „Við höfum verið að miða við stóra Goslokahátíð, kannski aðeins rúmlega það,“ sagði Arndís. Biðlistar eru í Herjólf en flutningsgeta ferjunnar er um 3.000 farþegar á sólarhring.

Almannavarnir funda í dag með ráðherra um hvort herða eigi á aðgerðum gegn kórónuveirunni bæði innanlands og á landamærunum vegna nýrra smita í samfélaginu. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV