Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Flotbryggjan í Drangey ónothæf eftir óveður

Mynd með færslu
Rústir flotbryggjunnar Mynd: Viggó Jónsson - Aðsend mynd
Flotbryggjan í Drangey, sem var smíðuð í vor, skemmdist í óveðri nýverið. Bryggjan er ónothæf og því ekki hægt að fara í skoðunarferð um eyjuna. Eigandi Drangeyjarferða telur tjónið hlaupa á milljónum.

Hvassviðrið sem gekk yfir landið í lok júlí fór ekki mjúkum höndum um flotbryggjuna í Drangey sem skemmdist mikið. Feðgarnir Viggó Jónsson og Helgi Rafn Viggósson hjá Drangeyjarferðum smíðuðu bryggjuna í vor. Feykir.is greindi fyrst frá.

Í samtali við fréttastofu segir Viggó skellinn töluverðan fyrir ekki stærra fyrirtæki. Bryggjan sé ónothæf og því ekki hægt að fara með fólk í land án mikillar fyrirhafnar. Hann telur tjónið hlaupa á milljónum, bæði vegna skemmda á bryggjunni og þar sem ekki er hægt að fara með fólk í skoðunarferðir um eyjuna.

Unnið að viðgerðum

„Þetta er svolítið upp í móti, eins og maður segir, en það eru ekki allar brekkur onímóti svo það er boðið upp á hringferðir um eyjuna í staðin“ segir Viggó. Hann segir unnið að viðgerðum, bryggjan sé ekki alveg brotin í spón en það þurfi að sjóða aðeins og lagfæra. Viðgerðum verði sennilega ekki lokið fyrr en eftir verslunarmannahelgi og þá sé farið að hausta mikið í vertíðinni. Þeir ætli því að koma sterkir inn næsta sumar: „Það er þekkt í aldanna rás að menn komast ekki í eyjuna þegar menn vilja, þá er að bíða færis,“ segir Viggó.   

Einn þriðji af venjulegu sumri

Þeir feðgar stofnuðu Drangeyjarferðir árið 2011. Starfsemin hefur farið stigvaxandi og Viggó segir síðustu tvö sumur hafa verið mjög góð. Fjöldi ferðamanna í sumar hafi verið um einn þriðji af því sem var síðasta sumar svo það hafi mátt fara betur. Viðskiptavinina segir hann hins vegar hæstánægða. Það sé sérstök upplifun að koma út í eyjuna og ferðalangar hafi líkt því við að koma til Galapagos-eyja enda sé það engu líkt að sigla inn með berginu og hlusta á fuglana í bjarginu. 

Mynd með færslu
Bryggjan á góðum degi
Mynd með færslu
Göngupallarnir frá bryggju að landi eru líka mikið skemmdir